Síðastliðinn föstudag dreymdi mig frekar krípí draum. Ég mundi hann, og skreytti hann örlítið, en annars er þetta það sem mig dreymdi.
“Hrefna! Ég er hér!”
Hún leit við, hafði verið að skima í kringum sig í leit að einhverju, ég rétt vona að það hafi verið ég. Þegar augu okkar mættust brosti hún og byrjaði að ganga í áttina að mér, og eftir stutta stund var þetta komið upp í létt skokk hjá henni. Ég gekk í áttina að henni, leit ekert í kringum mig og því síður hún. Það var vetur, eilítil hálka á götunni en lítil bílaumferð hinsvegar.
Skyndilega verður mér litið til hliðar, þar sem ég sé Honda Civic á örugglega 70 kílómetra hraða koma, en hámarkshraðinn á þessum slóðum er aðeins 30 km/klst. Ég lít aftur á Hrefnu og sé að hún hefur ekki tekið eftir bílnum og stefnir hraðbyri í veg fyrir hann.
“Hrefna!” kalla ég, “stoppaðu! Sérðu bílinn!”
Hún leit til hliðar og reyndi að stoppa, en rann í hálkunni og datt. Bíllinn hafði nú tekið eftir henni og reyndi að bremsa sýndist mér, en það var algerlega vonlaust. Hrefna stóð upp og var við það að koma sér í skjól, en það var einfaldlega of seint. Bíllinn klessti á hana á miklum hraða þannig að hún kastaðist upp í loftið og lenti fimm metra frá mér, á grúfu, hreyfingarlaus.
Ég dreif mig til hennar, ætlaði að snúa henni við þegar einhver kallaði til mín að það ætti ekki að hreyfa fólk eftir slys, veit ekki hver það var. Ég einhvernveginn stóðst mátið þó mér þætti þetta persónulega fáránlegt, ég vildi taka utan um hana og vernda hana gegn sársaukanum sem umlykur hana örugglega.
Ekki það að hún finni eitthvað meðvitundarlaus, en henni gæti dreymt illa, hver veit hvernig fólki líður meðvitunarlaust? Kannski var hún að upplifa slysið aftur, og aftur, og aftur, og fann sífellt meira til, hver veit?
Eftir langan, langan tíma, sem líklega var ekkert það langur, kom sjúkrabíll á staðinn. Ég færði mig frá, stóð svo stjarfur og horfði bílinn keyra í burtu. Vinkona hennar, Stella, stóð við hliðina á mér. Hún hafði líklegast komið með Hrefnu í bæinn, ég hafði bara ekki tekið eftir henni fyrr, ég hafði verið svo upptekinn af Hrefnu. Bæði þegar ég sá hana fyrst og þegar hún lá þarna, fagurt andlitið tómlegt.
Við vorum leidd í burtu, settumst inn í lögreglubíl sem skutlaði okkur á spítalann. Biðum þar, daginn eftir fengum við að hitta hana. Hún var í öndunarvél, ósköp lítil að sjá. Við vorum aðeins hjá henni, sögðum ekkert, fórum svo aftur fram eftir að læknarnir skipuðu okkar að fara fram. Eyddum öllum deginum á spítalanum, en þegar kvölda tók var okkur ráðlagt að fara. Stella fór, en mér tókst að lauma mér inn til Hrefnu, og ætlaði ég mér að eyða nóttinni þar.
Um miðja nóttina vaknaði ég við eilítið þrusk, ég rétt opnaði augun og sýndist ég sjá bílstjóra bílsins sem hafði keyrt á Hrefnu. Ég hélt að mig væri að dreyma, þannig að ég lokaði augunum og hélt áfram að sofa.
Daginn eftir vaknaði ég við að læknir með meira en lítið ógnvænlegt augnaráð hristi mig, spurði hvað í andskotanum ég hefði gert. Ég skildi hann ekki, ég hafði aðeins eytt nóttinni í stofunni, það var auðvitað ekki í lagi en varla neitt til að láta svona illa út af. Þannig að ég spurði hann af hverju hann væri að æsa sig svona yfir því að ég hefði einfaldlega bara eytt nóttinni í stofunni.
“Öndunarvélin var tekin úr sambandi í nótt. Hrefna er dáin.”
Ég var, vægast sagt, orðlaus. Einhver hafði drepið Hrefnu um nóttina og þessi djöfull í mannsmynd reyndi að kenna mér um það. Ég braut mér leið út, ýtti helvítinu frá og hljóp af stað og út.
Ég hljóp út á bílastæði, náði þar í leigubíl og sagði honum að fara uppí Efra-Breiðholt. Borgaði honum þegar á leiðarenda var komið, og labbaði út í lítinn skóg, flokk trjáa, sem stendur á milli Efra- og Neðra-Breiðholts.
Þar sem ég hafði hitt hana …
—–
- Á - var það eina sem ég hugsaði þegar ég allt í einu rakst á eitthvað óvenjulega mjúkt, þó ekki hafi það verið mjúkt, og óvenjulega stórt, af tré að vera.
Ég leit upp, og á móti mér sat ein fegursta stelpa sem ég hafði séð.
“Hæ”
—–
Fyrsti kossinn …
—–
“Það … hefur verið gaman í kvöld,” sagði hún þegar við vorum að labba úr bíóinu, frá Mjóddinni heim til frænku hennar, þar sem hún dvaldi.
“Já … Mjög svo,” sagði ég og brosti lítillega til hennar. Hún stöðvaði, ég stöðvaði næstum um leið, við horfðumst í augu, hún hallaði sér eiltíð fram, ég hallaði mér á móti, munnar okkur mættust í einhverju því allra klaufalegasta sem ég hafði nokkurn tímann gert, en um leið því allra besta. Eftir nokkrar sekúndur enduðum við kossinn, brostum til hvors annars og hölluðum okkur aftur fram …
—–
Fyrsta ástarjátningin …
—–
“Manstu þegar við hittumst hérna fyrst?” sagði ég skyndilega, þar sem við lágum á milli kræklinga, trjáa, eða hvað sem á að kalla þetta.
“Hehe, já! Það var vont …” svaraði hún hálfbrosandi, þó ég gæti ekki séð það þar sem ég var ekki að horfa á hana. Ég gat fundið hana brosa. Það var æðislegt.
“Eru virkilega bara tvö ár síðan?” spurði ég …
“Nei, það er bara eitt,” svaraði hún og hló. “Mér finnst það hafa verið eilífð.”
“Mér líka.”
Við þögðum.
“Hrefna …?”
Hún reisti sig aðeins við og horfði á mig.
“Já?”
Ég reisti mig á móti henni, leit í augun á henni, fagurblá og fín, einstök.
“Þú … Þú ert orðn einhverskonar hluti af mér. Óendanlega skrítið. Mér finnst eins og að ef þú myndir deyja, myndi ég deyja með þér, ég gæti ekki á nokkurn hátt haldið áfram … Þú ert æði.”
Hún brosti, óeðlilega glöð á svipinn, bros sem náði, næstum því, alveg til eyrna. Augun full af einhverju, einhverju ólýsanlega yndislegu, einhverju aðeins ætlað mér.
Og hún þurfti ekkert að segja, ég sá það.
—–
Nú sit ég hérna, og áttaði mig á því að þetta var rétt. Ég var gjörsamlega dauður án hennar.
Ég hafði á einhverjum tímapunkti byrjað að gráta eilítið, allavega voru kinnar mínar rennblautar, tárvotar. Ég dró upp hníf, sem ég bar á mér mér til varnar.
“Ég kem til þín Hrefna”
Og ég skar, hægt og rólega, horfði á blóðið spýtast út taktfast, í takt við hjarta mitt. Blóðið flæddi úr líkama mínum, úr hjarta sem var dautt fyrir.
Bráðum varð ég syfjaður, syfjaður, augnalokin fóru að þyngjast, ég hallaði þeim, allt varð svart.
Og ég vaknaði aldrei framar, hvorki í þessum heimi né öðrum.
Mig dreymdi að það væri ekið á vinkonu mína og að hún dæi, hitt var allt frekar mikið skreytt.