Datt í hug að þetta væri hentugasti staðurinn fyrir þessa sögu.
Ég labbaði inn í strætóinn. Mér er ekki vanalega ekkert sérstaklega vel við strætóa en kuldaboli beit heiftarlega hvern þann sem þorði að stíga fæti út fyrir hússins dyr svo að ég var hálffegin að komast inn í hlýjann og notalegann strætóinn.
Hann var hálftómur svo að ég breiddi úr mér yfir fjögur sæti og setti ipodinn í eyrun. Mér til mikillar skelfingar komst ég að því að strætóinn var ekki á leið á staðinn sem ég hélt að hann væri að fara. Þeirri hugsun skaut í gegnum huga minn að best væri líklega að ýta á stopp. Sú hugsun snarbremsaði og hvarf þegar vindhviðu blés inn um opna hurðina sem gaf til kynna hitastigið úti.
Auk þess hafði ein af dauðasyndunum sjö tekið yfir huga minn: Leti.
Laus við hugsanir að ég myndi líklega missa af æfingu og þyrfti að fást við kolbrjálaða og metnaðarsama foreldra þegar ég kæmi heim þá teygði ég enn betur úr mér í nýja konungsríkinu mínu.
En ég var ekki lengi ein í Paradís því nokkrum mínútum seinna ruddist herskár flokkur strætófarþegar frá hinni valdamiklu skiptistöð Lækjartorgi inn í konungsríki mitt og nokkur önnur auð nágrannaríki.
Ég varð að gjöra svo vel að draga herlið mitt, uppgefnar lappir og hendur, til baka af þremur af fjórum yfirráðasvæðum mínum. Ég tróð gjörsigruðum fótunum undir sætið mitt og krosslagði hendurnar sem höfðu verið nýsviptar helsta og einnig þægilegasta yfirráðasvæði sínu og hugsaði með mér að núna væri gott að eiga leynidyr sem ég gæti flúið út um líkt og París gerði til að bjarga sjálfum sér og Helenu frá Tróju.
Ég svipaðist um í leit af einhverju í líkingu við leynidyr en það sem komst næst því var neyðardyr sem að átti að brjóta ef að það myndi kvikna í strætónum.
Fullviss um að hvorki strætóbílstjórinn né farþegarnir yrðu mér neitt sérstaklega þakklátir ef ég myndi reyna að sleppa út um þær dyr þá hnipraði ég mig saman í mínu litla yfirráðasvæði sem vitist allt í einu vera enn smærra í samanburði við fyrrum konungsríki mitt sem var hrifsað af mér fyrir svo skömmu.
Ég leit af mínu örsmáa yfirráðarsvæði og á fólkið í kringum mig. Það var þá sem ég uppgötvaði hina stórbrotnu samskiptatækni sem að viðgengst í strætisvögnum Reykjavíkur og nágrennis.
Þessi samskipti voru fólgin í feimnislegum augnagotum og jafnvel enn feimnislegri brosum. Ég gat augunum á mann sem að sat í röðinni fyrir framan mig. Hann var snyrtilega klæddur, með gleraugu og ljóst hár. Líklega á milli tvítugs og þrítugs ef ég ætti að giska en eins og allir vita þá getur útlitið gabbað mann þannig að ég vill ekki vera að fullyrða neitt.
Ég byrjaði aftur að horfa út um gluggann en varð fljótlega leið á að horfa á Vetur konung misþyrma öllu jafn lifandi sem dauðu sem bærðist þarna fyrir utan.
Ég leit aftur á manninn í röðinni fyrir framan mig. Hann leit á mig til baka, kinkaði kolli, lagaði gleraugun og brosti litlu brosi. Augljóst var að hann var mjög reyndur í strætósamskiptum því að ekkert af fyrrnefndum hreyfingum hans bar merki um óöryggi eða feimni.
Ég hætti að horfa á hann en það stendur í óskrifuðum reglum í samskiptabók strætófarþegi að aðeins megi gjóta augunum stutt í einu á hvern og einn farþegi.
Ég renndi því augunum yfir farþeganna þrjá sem að höfðu haft af mér þrjú af meginlöndum mínum.
Til vinstri við mig var gamall maður með yfirskegg og í bláum jakka. Það var ekki beint útlitið sem vakti athygli mína heldur var það lyktin því sá gamli lyktaði af kaffi og jarðvegi.
Á móti mér sat strákur sem að var hálfsofandi með höfuðið klesst upp við rúðuna. Hann var greinilega ekki búinn að heyra um samskiptatækni strætóanna því að í þau fáu skipti sem hann opnaði augun þá starði hann tómlega út um gluggann og lokaði þeim svo strax aftur.
Ég ætlaði að fara að virða fyrir mér þriðju manneskjuna en þá stoppaði strætóinn hjá annari skiptistöð og jafn skjótt og fólk hafði komið inn þá þrammaði það út aftur. Strætóinn hélt aftur af stað en í þetta skiptið með mig sem eina farþegann.
Í þetta skiptið fann ég fyrir hálfgerðum tómleika því ég hafði uppgötvað þennan stórkostlega samskiptahæfileika en ekki fengið að nota hann nægilega.
Að lokum stoppaði strætóinn hjá Hamraborginni og ég gekk heim á leið með kuldabola sigursælann að hafa loksins fengið mig út bítandi í kinnarnar á mér.
En jafnvel sjálfur Vetur konungur gat ekki hrifið þessa nýju uppgötvun frá mér. Samskiptahæfileika sem þeir sem hafa ferðast með einkabílum allt sitt líf munu líklega aldrei uppgötva.
Samskiptatækni farþega strætóvagna.