Svona hafa nú tímarnir breyst....
Þegar mamma mín hélt jólin í gamla daga í Húsey þá þá var farið í Egilsstaði í lok nóvember og verslað inn fyrir jólin. Þá var allt keypt, jólagjafir, efni í kökubakstur, jólatré og matur. Jólagjafirnar voru venjulega eitthvað sem hverjum og einum vantaði svo sem fatnað, bækur og eitthvað dót. Þessi ferð var mikill spenningur hjá börnunum því þau fóru mjög sjaldan í kaupstað. Mömmu þótti minnisstætt að afi og amma hennar í Reykjavík sendu alltaf heila kassa af ferskum ávöxtum svo sem eplum, perum og appelsínum því að þetta var í eina skiptið á árinu sem að hún fékk ferska ávexti. Síðan um miðjan desember var byrjað að skrifa jólakort, baka, sauma jólafötin á börnin (en þau voru alltaf saumuð) og þrífa fyrir jólin , allt skúrað hátt og lágt. Síðan á þorláksmessu var bakað piparkökuhús og það var skreytt um kvöldið og hlustað á jólalögin í útvarpinu á Rás 1. Á þorláksmessu var jólagjöfunum líka pakkað inn. Á aðfangadagsmorgun fór mamma alltaf með pabba sínum í fjárhúsin og gaf kindunum og hleypti til. Pabbi hennar var alltaf með lítið útvarp með sér og þau hlustuðu á jólakveðjurnar til sjómanna, sem voru fjarri fjölskyldum sínum um jólin og fannst mömmu það afar hátíðlegt. Síðan svona um kaffileytið voru útiverkin búin og þá var farið heim í bað og jólatréð skreytt og pakkarnir settir undir það. Síðan klukkan 6 þá var sest að borðum og jólalambið borðað og ferskir ávextir með rjóma í eftirmat. Eftir matinn var farið inn í stofu og pabbi hennar settist í ruggustólinn sinn, krakkarnir færðu honum pakkana, síðan las hann utan á þá og rétti hverjum og einum sína pakka. Það var alltaf bara tekinn upp einn pakki í einu og allir fengu að sjá hvað í honum var. Klukkan 10 byrjaði aftansöngurinn í útvarpinu og þá settust allir saman og hlustuðu. Þá mátti ekki leika sér eða lesa á meðan, og það var stundum dálítið erfitt. Þegar aftansöngurinn var búinn var farið að skoða jólakortin. En þau mátti alls ekki skoða þegar þau komu með póstinum. Þegar þetta var búið máttu allir fara að gera það sem þeim langaði til, lesa eða leika sér. Á jóladagsmorgun var sofið út. Síðan þurfti að gefa kindunum og hleypa til. Eftir það var farið í jólaheimsókn til afa og ömmu hennar mömmu sem bjuggu á næsta bæ. Þar var borðað hangikjöt, spilað, ólsen ,ólsen og vist, og spjallað fram undir kvöld.