Algengustu mælingar á nitursamböndum (köfnunarefnissamböndum) í jarðvegi eru mælingar á heildarmagni niturs (N) og ólífræns niturs (ammóníum og nítrat). Auk þess eru margvísleg nitursambönd í lífrænum efnum í jarðvegi, allt frá plöntuleifum til moldarefna. Í stuttu máli er hér greint frá nokkrum algengum mæliaðferðum.
Heildarmagn N með Kjeldahl aðferð: Jarðvegur er venjulega þurrkaður við lágan hita og sigtaður í gegnum sigti með 2 mm möskastærð. Jarðvegsýni er votbrennt með brennisteinssýru og viðeigandi hvötum. Við votbrennsluna brotna lífræn efni niður og nitur losnar sem ammóníumjónir í lausn, ammóníak er eimað úr lausninni með sterkri lútlausn og fangað í bórsýrulausn. Ammóníakið hvarfast við bórsýruna og hún er títruð til baka með staðlaðri saltsýru.
Heildarmagn iturs með Dumas aðferð byggir á þurrbrennslu og mælingu á nitri í formi lofttegundar (N2). Tækjabúnaður fyrir votbrennslu er í notkun á ýmsum rannsóknastofnum hér á landi.
Ólífrænt nitur: Ammóníum og nítrat er skolað úr ferskum jarðvegsýnum (eftir sigtun) með saltlausn. Algengt er að nota kalíumklóríðlausn af ákveðnum styrkleika, 1 M eða 2 M (mól/lítra) og er hlutfall jarðvegs og lausnar er einnig staðlað. Skollausnin er síuð frá jarðveginum og ammóníum og nítrat mælt í lausninni annað hvort með eimingaraðferð eða litarmælingu.
Við eiminguna er magníumoxíð notað sem lútgjafi sem umbreytir ammóníum í ammoníak. Ammóníakið í eimingunni er fangað í bórsýru og mælt með títrun. Nítrat er síðan afoxað í ammóníum með afoxandi málmblöndu og mælt með eimingu og títrun eins og ammóníumjónin.
Sem dæmi um litarmælingu má nefna mælingu á nítrati eftir afoxun í nítrít, sem gefur lit með súlfanílamíði. Tækjabúnaður fyrir litarmælingar hentar vel fyrir tiltölulega mikinn fjölda sýna.
Einföld aðferð hefur verið notuð við mælingar á nítrati í jarðvegsýnum úr garðyrkju. Eftir skolun sýna með viðeigandi lausn eru notaðir pappírsstrimlar sem gefa lit eftir magni nítrats í lausn. Liturinn er metinn með samanburði við litaskala. Þótt aðferðin sé ekki sérlega nákvæm dugir hún vel þar sem mælingar eru gerðar reglulega og áburður borinn á eftir þörfum á vaxtartímanum.
Loks má nefna mælingar á nýtanlegu nitri í jarðvegi með margvíslegum skolaðferðum og lífmælingar á losun niturs úr lífrænum efnum í jarðvegi.
Skolun jarðvegs til þess að meta nýtanlegt nitur hefur verið notuð í rannsóknum. Athyglin hefur einkum beinst að skolun með heitu vatni eða heitum saltlausnum, ýmist suðu með gufuþétti eða undir þrýstingi eða eimingu. Oftast er þá um að ræða mælingu á ammóníum eða heildarmagni niturs. Mælingarnar gefa einungis vísbendingu (e. index) um magn nýtanlegs niturs og eru helst nothæfar í samanburð, til dæmis á mismunandi ræktunaraðstæðum eða jarðvegsgerðum, en ekki til þess að segja til um hve mikið framboð sé á nýtanlegu nitri í jarðvegi mælt í kg/ha.
Rannsóknir á losun niturs og kolefnis úr lífrænum efnum í jarðvegi eru oft gerðar á rannsóknastofum við staðlaðar aðstæður hvað hitastig og vatn í jarðvegi varðar. Losun niturs er þá mismunur á því sem binst í lífmassa jarðvegs og því sem losnar úr plöntuleifum og moldarefnum fyrir áhrif örvera og smávera í jarðvegi. Nitur losnar í formi ammóníumjóna og ummyndast í nítrat með aðstoð örvera. Losunin er mæld sem uppsöfnun ólífræns niturs, ammóníumjóna og nítrats. Losunarmælingarnar eru ein af undirstöðum reiknilíkana fyrir umsetningu niturs og kolefnis í jarðvegi. Þessi líkön meta losun niturs og kolefnis úr lífrænum efnum jarðvegs, upptöku niturs í plöntur og útskolun úr jarðvegi, tap í formi lofttegunda og uppsöfnun í jarðvegi.
Finnst ykkur þetta ekki fínt,bráðum kem ég með meira svona úr “þvottabyrninum í ristavélinni”
Ekkert er leiðinlegra en leiðinleg undirskrift!