Áður en þér hefjið lestur á þessari frumraun minni í greinaskrifum hér á huga tek ég fram að víðsýni ræður ríkjum og er ég opinn fyrir allskyns gagnrýni og ábendingum, en þó ekki ofsafengnum rökleysum þar sem fólk hallast til þess að nota upphrópunarmerki í óhófi. Þó efast ég um slíkt því þessi grein er í raun mikið um lítið og frekar óáhugaverð, en í því felst áhugaverðleikinn(ef það er orð).
Ég rakst á svar við grein þar sem einhver, bara útí loftið, sagðist vera með ljótar tær. Ég hugðist deila lífsreynslu minni með viðkomandi, en svarið reyndist hreinlega vera of langt og því ákvað ég að senda eftirfarandi inn sem grein:
Tær, nánar tiltekið tærnar á mér, skilgreindar sem smálimir fremst á fæti hefðu sögu að segja ef þær gætu talað, en það geta þær ekki… í flestum tilvikum. Þær státa ekki af neinni afbrigðilegri lögun eða stærð heldur eru, voru þær fullkomlega eðlilegar á því sviði.
Það vildi svo til að fyrir ekki alls löngu, fáeinum árum eða svo að ég varð mikillar bólgu var á ytri hliðum stóru tánna við neglurnar og fylgdi henni mikil viðkvæmni og einnig mikil úthelling graftar.
Í fyrstu hugsaði ég lítið um þetta og það eina amalega sem hugsast gat um þetta var að þurfa rífa upp sokka-flygsur úr tá-skorunum, sem yfirleitt voru þar fastar af völdum graftar og einstaka blóðdropa. Þessu fylgti oft smávægilegur sársauki, en hvað eru nokkur tár fyrir slíka tá-kroppun sem svo oft færði mér hina unaðslegu tilfinningu þekkta sem að-losna-við-blóðblautt-og-graftarvafið-sokkakusk-úr-tá num? Þó gat þetta reynst hin ágætasta skemmtun á síðkvöldum sumarsins og eyddi ég drjúgum stundum við þá iðju.
Þrátt fyrir viðleitni mína og jákvætt viðhorf tók “sýkingin”, sem ég í fávisku minni taldi þetta vera, að stigmagnast og með henni bólgan og viðkvæmnin. Ég leitaði á náðir læknis að nafni Þórhildur, ef mig minnir rétt, því minn trausti heimilislæknir hóf hótel rekstur eða eitthvað slíkt fyrir norðan eða sunnan, reyndar hef ég ekki hugmynd um hvar þessi rekstur átti sér stað eða hvort hann sé á rökum reistur, því mér einfaldlega “finns” hann hafa hafið hann.
Hinn nýji eða nýi, ég var að hlusta á stafsetningar reglurnar um svona orð í gær, án mikils árangurs greinilega, heimilislæknir, Bóthildur gerðu viðamiklar rannsóknir og var niðurstaða hennar: INNGRÓNAR TÁNEGLUR! Agndofa yfir niðurstöðunum féll ég, í losti og hálf lamaður niður í gólfið og grét bitrum tárum langt fram eftir kvöldi. Æ, nei, það var Bandarísk kvikmynd, nevermænd. Hinn úrræðagóða Hildur skrifaði uppá einar þrjátíu pensilín töflur sem ég átti svo að taka á tíu dögum.
Er í ljós kom að þessi lyfjagjöf kæmi ekki að notum var ákveðið að
reyna á einfalda aðgerð sem fólst í því að klippa burt hluta af nöglunum, þ.e.a.s. tánöglunum, fyrir þá sem voru að koma. Æ, nei, þarna virðist ég hafa gert önnur mistök, þetta er á prenti. Sú aðgerð bar tímabundin árangur og aðrar þrjátíu töflur.
Því næst, einhverjum tíma eftir aðgerðina var mér vísað til skurðlæknis sem ég man ekki hvað heitir en hann var þybbinn og sveittur á köflum, þ.e.a.s. svitinn, þó gæti hann vel hafa verið þybbinn á köflum, ég myndi ekki vita það. Hann, með mikilli dirfsku, lagði á ráðin um að gera skurðaðgerð á tánum og fjarlægja hluta af nagla-rótinni. Sú aðgerð átti sér eitthvart heillandi læknisfræðilegt nafn þó ég muni það ekki lengur, frekar en margt annað.
Aðgerðin átti sér stað á læknisstofu niðrí bæ þar sem ég eyddi drjúgri stund á biðstofu með konu sem ég man ekki hvað var sérstakt við, en eitthvað var það. Það kom brátt að aðgerðinni og var mér heilsað af manni sem kynnti sig, sprautaði mig og fór. Sársauka deyfingar-sprautunnar hef ég ekki upplifað síðan fyrir utan það þegar svarta og rauða hlutnum sem fylgir með hringförum er skrúfað og þrýst upp við litlaputta. Þegar ég hugsa um það kemur það ekki nálægt því að vera svipað sprautunni. En nóg um það.
Ég, þ.e.a.s. höfundurinn, en þið hljótið að vita það núþegar, var plástraður og sendur mína leið með fleiri pensilíntöflur. Bílinn sem kom mér á leiðarenda, þó ekki af sjálfsdáðum því hann var keyrður og ég í honum, neitaði að fara í gang og þurfti því að hóa í annan bíl, sem mætti að lokum, en ekki fyrr en ég þurfti að þola mikinn kulda á tánum.
Ég eyddi næstu vikunni í rúminu en mætti aftur til náms tveim vikum síðar, þó með breytt göngulag sem endist í u.þ.b. mánuð.
Og þeir segja að fólk í þriðja heims löndunum hafi það slæmt.