Tekið af mbl.is…
Gegn notaðri kaffivél og andvirði 2.900 króna í lausnargjald tókst Cristinu Gonzalez í argentínska bænum Cosquin um helgina að leysa síamsköttinn sinn úr haldi “kattræningja”. Gonzalez tjáði blaðamönnum að kettinum hennar hefði verið rænt af dyramottunni heima hjá sér. “Fjárkúgararnir hringdu strax” og heimtuðu 300 pesóa, sem svarar til tæplega 5.000 ísl. króna, í lausnargjald. Eftir nokkurt samningaþóf varð úr að “kattræningjarnir” fengju 200 pesóa, um 2.900 kr., auk notaðrar kaffivélar gegn því að skila kettinum heilum á húfi. Glæpir gerast nú æ tíðari í Argentínu vegna slæms efnahagsástands í landinu og er nokkuð um að lausnargjald sé knúið fram með mannránum, en rán á dýrum í þessum tilgangi eru fátíð.
Gonzalez afhenti lausnargjaldið á strætisvagnastöð þar sem fjórtán ára gamall meintur “kattræningi” tók á móti því og hét því að skila kettinum eftir tíu mínútur. Eigandinn átti svefnlausa nótt í kjölfarið, þar sem ræningjarnir stóðu ekki við þetta. En morguninn eftir birtist kötturinn mjálmandi við dyrnar. “Alveg heill á húfi,” sagði Gonzalez.