Blaðamaður danska blaðsins Berlingske Tidende segir í dag, að fjögur lög hafi borið af í Eurovision söngvakeppninni í Belgrad í gær, þar á meðal íslenska lagið, sem hafi átt betra skilið en að lenda í 14. sæti. Danir gáfu Íslandi 12 stig í atkvæðagreiðslunni.

Thomas Søie Hansen segir raunar, að lögin í úrslitunum hafi verið óvenjulega góð að þessu sinni og hann er ekki vonsvikinn yfir því að danski söngvarinn Simon Mathew hafi endað í 15. sæti. Sú niðurstaða hafi verið fyllilega verðskulduð enda sýni nýleg sólóplata Mathew að hann sé slakur söngvari og enn verri lagasmiður.

Þá segir Hansen að það hafi verið sérstök ástæða til að gleðjast yfir lögum Grikkja, Bosníu-Herzegóvínu, Noregs og Íslands. Gríska lagið hafi verið það besta í keppninni og hefðu Grikkir sent betri söngkonu en Kalomiru til leiks hefðu þeir sigrað.

Lag Bosníu hefði ekki verið Eurovisionlegt heldur skemmtilega samsett. Lag Norðmanna hefði verið afar gott og söngkonan sömuleiðis.

„Síðast en ekki síst verður að hrósa Íslandi, sem í ár sendi klassískt eurudanslag til Belgrad. Það var þannig útsett að flytjendurnir hefðu getað veitt Aqua harða keppni þegar sú sveit var upp á sitt besta á 10. áratug síðustu aldar. Íslendingarnir áttu betri örlög skilið," segir Hansen.

http://mbl.is/mm/folk/frettir/2008/05/25/islenska_lagid_atti_betra_skilid/

Það þarf að gera eitthvað í klíkuskap Austur-Evrópu…
Það er nefnilega það.