Jæja, þá er komið að því: úrslit í Evróvision 2010 eru framundan.

Þetta er mitt mat á lögunum sem komust í úrslit, ég held að þetta sé röðin sem þau munu koma fram í lokakeppninni. Ég sakna þess reyndar að fá ekki að sjá gagnkynhneigða karlmenn í glimmernærbuxum í úrslitum Evróvision í fyrsta sinn, en Evróvision er ekki alltaf sanngjarnt.

Spá fyrir úrslitin er að finna í lok greinarinnar fyrir þá sem nenna ekki að fara í gegnum alla keppnina og horfa bara á stigagjöfina.

Aserbaídsjan verður fyrst á svið. Ég hefði ekki valið þetta lag til að opna keppnina þótt laginu sé spáð góðu gengi, jafnvel sigri. Ég vona að það gangi ekki eftir. Fyrir minn smekk er það of bandarískt, en það er líklega það sem mun koma því áfram. Mér finnst þetta nánast eins og eitthvað sem Rhianna myndi flytja, allt í lagi en ekkert sérstaklega skemmtilegt. Á sviðinu fannst mér heldur mikið að gera hjá söngkonunni við að sveifla hárinu, hlaupa hingað og þangað og reyna að syngja.

Spánn
Lagið er framför frá tómatsósulaginu um árið en kannski aðeins of einhæft. Því miður hugsa ég að því muni ekki ganga sérstaklega vel. Svo auðvitað þjáist lagið af því að hafa hreppt hið óheillarásnúmer 2. Þetta er samt með betri lögum sem ég man eftir frá Spáni.

Noregur
Hann er voða sætur og hann syngur voða vel og lagið er voða sætt og það venst ansi vel. Ég hallast frekar að góðu gengi en slöku ef hann nær öllu háu tónunum sínum.

Moldavía
Ég var hissa á að sjá moldóvska lagið fara í úrslitin. Þetta er fínt popplag sem límist í höfuðið á mér. Reyndar fundust mér búningarnir og mjaðmahnykkir saxófónleikarans minna á Rocky Horror og ég er ekki alveg búin að ákveða hvort það er gott eða slæmt.

Kýpur
Annað lag sem ég hafði fyrirfram ekki búist við að kæmist upp úr undankeppninni, þar sem það er ekkert spes. Ég held að Kýpverjar muni ekki ná mjög góðum árangri í úrslitunum.

Bosnía-Herzegóvína
Enn eitt lag sem ég var hissa að sjá fara áfram. Lagið fannst mér ekki nógu sterkt, sviðsframkoman var soldið hallærisleg en mér fannst samt heildarsvipurinn á atriðinu passa við lagið, sem er meira en hægt er að segja um sum atriðin.

Belgía
Vonandi svæfa Bosníumennirnir ekki allann lýðinn því það væri mikil synd fyrir hann að missa af þessu litla sæta belgíska lagi. Þetta er eitt af mínum uppáhalds lögum í keppninni og er meira að segja eitt af tveimur lögum sem ég kaus í undankeppninni, og það þarf töluvert til að fá mig til að taka upp símann.

Serbía
Maðurinn (að því að talið er) með sléttujárnið. Ekkert spes. Spurning hvað ferðamálaráð Serbíu höfðar til þjóðerniskenndar margra Balkanlanda. Gæti náð gáðum árangri í gegnum það.

Hvíta-Rússland
Hefði mín vegna mátt fara heim eftir þriðjudagskvöldið jafnvel þótt mér hafi þótt vængirnir og glitrandi kjólarnir svolítið fallegir. Væministigið er of hátt fyrir mig í þessu lagi og þau sungu ekki vel.

Írland
Fyrirfram var þetta lag í uppáhaldi hjá mér en frammistaðan á fimmtudaginn fannst mér ekki ná að fylgja því eftir. Ef frammistaðan í úrslitunum verður ekki tipp-topp þá held ég að árangurinn verði ekki mikill. Ég vona að hún nái að negla þetta þá en er ekki mjög bjartsýn.

Grikkland
Ég get ekki neitað því að þetta er grípandi stuðlag en ég mér finnst ekkert heillandi við flytjandann eða atriðið. Hamagangurinn á sviðinu er of mikill, finnst mér, og aðalsöngvarinn nær ekki til mín. Ég hugsa nú samt að þetta muni vera á topp 10.

Bretland
Það er óskiljanlegt hvernig tónlistarþjóð eins og Bretland getur grafið upp þessa keppendur og þessar lagasmíaðar sem þeir senda. Ég refsa þeim fyrir það. Ef þetta væri annað land væri ég miklu tilbúnari til að fyrirgefa en þetta er Bretland. Lagið núna er ekki eins slæmt og sum bresku lögin á undanförnum árum hafa verið en það verður líklega mjög lágt á lista eftir stigagjöfina.

Georgía
Ég sá þetta lag ekki í undankeppninni en var glöð að sjá að það komst áfram. Það er ansi líkt Is it True á köflum, en það var gott lag. Ég spái þessu um miðja röðina.

Tyrkland
Ekki alveg minn tebolli en fáir eru jafn vel dreifðir um Evrópu og jafn heimahollir og Tyrkir. Væru Íslendingar jafn fjölmennir þá væru þeir engu betri svo ég ætla ekki að kvarta yfir því, svona er þetta bara.

Albanía
Þetta var hitt lagið sem ég kaus á þriðjudagskvöld. Mér finnst þetta popplag af bestu gerð, hressilegt og vel sungið. Mér fannst frábært að söngkonan er ekki kornung sílikonblaðra með sýniþörf. Þótt ég hafi gagnrýnt það að í sumum atriðum sé of mikið að gerast á sviðinu þá er ég á öfugri skoðun með þetta lag, og reyndar íslenska lagið. Þar finnst mér vanta dansara sem leiða þann dunandi dans sem á fylgja þessum smellum. Þetta eru kannski óheppileg áhrif af velgengni Jóhönnu Guðrúnar í fyrra, sem einmitt var bara ein á sviðinu og lítið að gerast, en það lag var allt annars eðlis.

Ísland
Það verður aldeilis stuð að fá Albanska og Íslenska lagið hvort á eftir öðru, en erfitt að segja hvort þessi nástaða muni valda þeim erfiðleikum og þá hvort betra er að vera fyrra eða seinna lagið.
Mér finnst lagið ódýr endurvinnsla á This is My Life og svolítið klisjukennt að nota einhvern alþjóðlega þekktan frasa sem „Catch Phrase“ en Hera og aðstoðarfólk hennar flytja lagið svo vel að ég get ekki annað en verið solt af þessu framlagi okkar.

Úkraína
Þegar albanska söngkonan og Hera verða búnar að rífa upp stemninguna mun þessi stúlka frá Úkraíunu dempa hana verulega. Þetta finnst mér allra leiðinlegasta lagið í keppninni og mun nýta þessar þrjár mínútur til að sinna kalli náttúrunnar, fylla snakkskálina eða gera hvað sem er til að leiða atriðið sem mest hjá mér.

Frakkland
Franska lagið þykir mér mjög skemmtilegt og er eitt af þeim lögum sem ég væri sátt með að ynni… ég er hóflega bjartsýn á að ég fái það uppfyllt. Ég sá upptöku af æfingu á Youtube og verð að játa að ég aðeins hikandi með sviðssetninguna og danssporin en ég ætla að halda mig við að spá þessu lagi mjög góðu gengi.

Rúmenía
Þetta finnst mér meðallag. Mér finnst svolítið flottur kaflinn þar sem söngkonan fer yfir í óperusöng en að öðru leyti er þetta í meðallagi.

Rússland
Eru Rússar að djóka? Sumir segja það, ég næ ekki djókinu en get samt ekki annað en flissað yfir öllu saman. Þessi tregasöngur er mjög innilega fluttur og söngvarinn er allavega klæddur í samræmi við þann kalda veðurtón sem kveður við í laginu og sviðssetningunni

Armenía
Ég skil ekki af hverju þessu lagi er spáð sigri. Hún syngur ágætlega og er sæt en lagið er í besta falli meðallag og þetta er eitt af þeim atriðum þar sem mér finnst heldur mikið um að vera á sviðinu… og hér á ég erfitt með að skilja samhengið, eða hef bara of lítinn áhuga á apríkósum.

Þýskaland
Mér ber þjóðræknisleg skylda til að halda með Þýskalandi, sé það mögulega hægt, og í ár er það vel hægt. Mér finnst lagið fínt en ég er eiginlega enn meira hrifin af karakter söngkonnunar Lenu Mayer-Landrut. Sumir vilja meina að Þjóðverjar eigi að þessu sinni séns á að vinna. Ég veit ekki hvort það gangi en þeir eiga prik skilið fyrir að hafa náð að rífa upp smávegis áhuga á Evróvision í Þýskalandi eftir mikla ládeyðu.

Portúgal
Persónulega er ég ekki hrifin af þessar Mariah Carey og Celine Dion blöndu en ég var voða ánægð með að Portúgalar komust áfram vegna þess að söngkonan var virkilega sjarmerandi og stóð sig mjög vel í undankeppninni. Ég held samt að lagið sé ekki nógu grípandi til að ganga vel og mun líklega falla í skuggann af næsta lagi sem kemur á eftir, sem líka er ballaða og aðeins meira grípandi.

Ísrael
Ísraelska laginu er víða spáð góðu gengi. Ég er sammála því að söngvarinn syngi vel, hann er myndarlegur og lagið er fínt. Mér finnst samt vanta herslumuninn. Lagið er sungið á hebresku. Ef ég skil ekki tungumálið sem sungið er á finnst mér ég þurfa eitt orð eða sterkan frasa sem ég munað og sungið þrátt fyrir að hafa ekki hugmynd um hvað hann þýðir. Þetta finnst mér ísraelska lagið vanta. Líklega endar Ísrael samt ofarlega.

Danmörk
Það gæti orðið gott fyrir Dani að enda keppnina. Lagið er ekki meistaraverk en ágætt til síns brúks. Mér finnst það sem Sigmar benti á í útsendingunni á fimmtudaginn, réttmæt gagnrýni: fyrir ástarlag eru söngvararnir mjög lítið hrifnir af hvort öðru. Þetta væri miklu skemmtilegra ef það væri einhver neisti á milli þeirra.


Á ég þá að reyna að setja fram spá sem verður hrakin í tætlur þegar stigagjöfin fer fram? Ef ég fer mestmegnis eftir minni skoðun og smekk, þá myndi ég raða svona á topp tíu: 1. Belgía, 2. Frakkland, 3. Þýskaland, 4. Ísland, 5. Albanía, 6. Noregur, 7. Moldavía, 8. Danmörk, 9. Spánn, 10. Georgía. Reyndar kem ég sjálfri mér á óvart í þessar spá, en hvað um það.

Ef ég lít þetta aðeins raunsærri augum og reyni að taka tillit til landfræðilegrar legu og fleira, fæ ég út þessa spá fyrir efstu tíu, nú í öfugri röð: 10. Ísland, 9. Belgía, 8. Ísrael, 7. Tyrkland, 6. Armenía, 5. Þýskaland, 4. Aserbaídsjan, 3. Grikkland, 2. Danmörk, 1. Frakkland. Hér líka verð ég að segja að ég er svolítið bjartsýn.

En þegar öllu verður á botninn hvolft þá skiptir ekki endilega mestu máli hver vinnur. Mestu skiptir að það verði gaman ;)

Gleðilega Evróvision keppni!
Forever is such a long, long time and most of it hasn't even happened yet.