Spá mín við fyrstu hlustun
Jæja, Ég hef gert þetta síðustu tvo ár og var beðinn í fyrra um að gera aðra um næstu keppni svo að það verður reynt. Bara svona til öryggis þá vil ég taka það fram að ég er enginn Eurovision-spekingur svo alls ekki láta ykkur detta það í hug að stóla á mína dóma (Ég spáði m.a. við fyrstu hlustun að Finnland kæmist ekki áfram 2006 og að Ungverjaland kæmist ekki heldur áfram 2007). Ég reyni samt að dæma lögin af minni bestu getu. Það er 100% að þið verðið flest ekki sammála mér en þá er bara eitt í stöðunni, komið ykkar skoðun á framfæri. ;)
(Það má einnig taka fram að ég er ekki að velja einhvern ákveðinn lagafjölda úr þetta er dæmt út frá því hvort hver lag fyrir sig ætti skilið að komast áfram)
Þeim sem ekki hafa heyrt öll lögin er bent á www.eurovision.tv
Andorra
Mjög grípandi lag. Lagið er hresst og svona býsna dansvænt en hinsvegar finnst mér það pínu einhæft svo að það gæti orðið þreytandi með tímanum. Spái því áfram.
Albania
Albanir (eða Albanar?) eru þekktir í Eurovision fyrir að hafa svona róleg og býsna líflaust lög. Þegar lagið byrjaði hljómaði það mjög þannig en svo fór að færast smá rokktaktur inní þetta og var þetta svona ágætt. Ég er samt ekki viss hvort að þetta sé nóg svo að ég spái því ekki áfram.
Armenía
Lagið grípur mann í byrjuninni þó að mér fannst röddin hjá söngkonunni ekki alveg tær í þeim kafla. Lagið er alveg ágætt en svona þegar fór að líða á lagið var ég farinn að hugsa um allt aðra hluti. Spái því engu að síður áfram.
Azerbaijan
Bjóðum Azerbaijan velkomin til keppni. Hvar eru Azerbaijan annars??? Ah, skiptir ekki máli.
Vá! Ég veit ekkert hvernig ég á að dæma þetta lag. Þarna eru komnir tveir rokkarar sem að má segja að prufi margt. Ok, kostir og gallar. Kostir: Lagið er í rauninni gott og ég fíla mig mjög inní það. Gallar: Byrjunin er hörmung!!! Hún sýnir vissulega raddhæfileika hjá öðrum söngvaranum en þetta er samt svo slæmt. Auk þess hljómar þetta mjög stolið en einn eiginleiki Eurovision er að það skiptir ekki nokkru máli. Ég held að þetta lag sé svona þú elskar það eða hatar það. Spái þeim áfram.
Hvíta-Rússland (Belarus)
Hvít-Rússar ætla að prufa að nota titilinn Hasta La Vista á sitt lag en það gerði Úkraína einnig sitt fyrsta ár í keppninni. Lagið hér er mjög gott finnst mér. Það er svona mitt á milli að vera popp eða rokk og er bara býsna vel flutt. Myndbandið lítur svona pínu út eins og straight útgáfa af sviðsframkomu Páls Óskar í Dublin. Spái því áfram.
Belgía
Lagið hefur þjóðlegan blæ sem að hefur oft virkað en það gerir hann alls ekki hér. Instrumental væri lagið allt í lagi. En það eru of margir að syngja mismunandi línur og það lítur mjög óskipulagt út. Spái þeim ekki áfram.
Bosnia & Herzegovina
Athyglisverður gjörningur og gaman að sjá forna landbúnaðarhætti á sviðinu. En lagið og flutningurinn er hreint út sagt hryllingur. Spái þeim ekki áfram.
Búlgaría
Öhh sérstakt. Byrjar á klúbbafíling og færist svo útí svona smá, hvað skal segja, Amy Winehouse fíling?. Ég er ekki heillaður af þessari blöndu en aðrir gætu verið það. Spái þvi ekki áfram
Króatía
Lagið frá Króatíu er svona smá ítalskur Haukur Morthens fílingur. Viðlagið er ágætt miðað við hvernig tónlistarstíll þetta er en restin er svona býsna lala. Auk þess á þetta lag ekki heima í Eurovision heldur á árshátíð samkvæmisdansara. Spái því ekki áfram.
Kýpur
Lagið var vel flutt og ekkert út sviðframkomu að setja þannig. Mér bara fannst þetta ekki vera lag. Það var ekki slæmt en ekki heldur gott. Bara fór inn um annað eyrað of útum hitt. Spái því ekki áfram.
Tékkland
Flott atriði. Lagið er gott þó að það sé ekkert að skara neitt voðalega fram úr. Það er alveg hægt að dilla sér við lagið og ekki skemmir það fyrir karlþjóðinni að sjá þessar stúlkur dilla sér við það í myndbandinu. Aðeins fannst mér vanta uppá röddina hjá söngkonunni en það gæti verið að fólk horfi framhjá því vegna þess að hún er vægast sagt glæsileg. Spái því áfram
Danmörk
Jáh, djöfull er ég ánægður með Dani núna. Lagið All Night Long sem þarna hljómar er alveg stórgott. Lagið er hresst og vel sungið og bara þvílíkt stuð. Viðlagið hljómar í hausnum manni bara í dáldinn tíma eftir að laginu sleppir. Eina sem ég set útá það er að mér fannst ég heyra setninguna „all night long“ býsna oft en það er nú ekkert stórmál. Áfram með Dani.
Eistland
Haha. Eistar hafa brugðið á það ráð sem að margar þjóðir hafa reynt þ.á.m. við Íslendingar og það er grínið. Grín í Eurovision er stundum gott og stundum slæmt. Persónulega finnst mér létt flipp í lagi svo lengi sem að fari ekki í útí öfgar. Silvía Nótt og Verduska fannst mér persónulega útí öfgar en Wadde-hadde-du-de-da árið 2000 og We are the winners í hittifyrra fannst mér svona hæfilegt. Þetta lag finnst mér akkúrat svona hæfilegt. Mig grunar reyndar að textinn gæti verið eitthvað skrítinn en þar sem ég skil hann ekki þá get ég ekki verið viss. En þetta er svona létt flipp í söngvurunum og lagið er í rauninni ekki það slæmt. Er ekki viss um að þeir komist áfram en ég hefði ekkert á móti að sjá þá áfram.
Finnland
Finnar eru búnir að vera rokkaði síðustu tvö ár og hefur það virkað vel fyrir. Þeir senda núna aðra rokksveit sem er þó aðeins frábrugðin og ég segi aðeins því mér finnst þetta minna dáldið á Lordi. Lagið er ágætt, þetta er svona hresst rokk þó að mér finnist það pínu innhaldslaust á köflum. Spái þeim áfram.
Frakkland
Þetta er eins og mjög leiðilegt 80‘s lag. Svona Phil Collins á róandi. Lagið er bara slæmt í alla staði og þetta er örugglega hallærislega myndband sem ég ef nokkurn tíma séð. Frakkar eru sjálfkrafa komnir áfram en það hefðu þeir aldrei gert með þessu lagi. C‘est horreur.
Makedónía (Former Yugoslavian Republic of Macedonia)
Þegar söngkonan syngur ein er þetta svona alveg þolanlegt en mér finnst þetta allt svo flækt og ruglingslegt þegar kallarnir syngja með. Í heildina er þetta lag bara ekki að hrífa mig. Spái þeim ekki áfram.
Georgía
Við gætum haldið heila auka Eurovision keppni um lög sem fjalla um frið. Georgía vill frið og setur þarna saman kröftugt lag og kröftugan boðskap. Lagið er bara stórgott fyrir utan pínu óþægilega skiptingu inní viðlagið og spái ég því hiklaust áfram.
Þýskaland
Þarna er mætt stúlknasveit (eða kvennasveit fer eftir hvernig þú lítur á það) sem kallar sig No Angels. Lagið er bara nokkuð gott og er vel flutt að mestu leyti en mér fannst á nokkrum stöðum vanta smá samræmi í þær. Þjóðverjar eru komnir áfram en það hefði líklega gerst hvort eð er.
Grikkland
Mjög dansvænt lag minnir pínu á Christina eða Beyonce. Þetta er svona smá prímadonnulag og ekkert að því, bara í flesta staði vel heppnað. Sá ekkert að en sá reyndar ekkert heldur mikilfenglegt. Spái því áfram.
Ungverjaland (Hungary)
Hvað? Nei afsakið ég sofnaði. Þetta er svona rólegt og fallegt lag og mér líður voðalega vel þegar ég hlusta á það. Ég er mikill ballöðu maður og vel ég oft góða ballöðu frekar en hresst rokk og því er þetta lag akkúrat í minn deild. Gallinn við þetta lag er að þótt það sé gott er þetta svona lag sem ég myndi setja á fóninn þegar ég er leggja mig eða slaka á. Ungverjum gæti tekist að setja heimsmet í hópsvæfingu. Spái því áfram.
Ísland
Nei, komið að okkur en gaman. Mér finnst þetta lag alveg frábært. Það er hresst, dansvænt og er flutt af tveimur af bestu flytjendum Íslands. Við höfum átt erfitt í þessari keppni eins og allir vita en eftir að reglunum var breytt þá er ég nokkuð viss um að þetta komist áfram
Ég vil ekki vera með leiðindi en ég verð að skjóta þessu hérna inn. Friðrik Ómar hefur verið gagnrýndur af því að hann er samkynhneigður og hagi sér svo svakalega gay. Ef að það er málið af hverju er þá Páll Óskar svona vinsæll??? (Ekki misskilja mig samt Palli er snillingur ég fór bara að pæla í þessu fyrir nokkru)
Írland
Úff ég er búinn að kvíða eftir því að dæma þetta lag síðan ég byrjaði á greininni. Ok, ég veit að tilgangurinn með þessu lagi er að mótmæla símakosningunni og Írland er þarna að senda Eurovision löngutöngina en samt er þetta of mikið. Ekki bara nístir byrjunin mig alveg inn að beini heldur er þetta snilldar touch að láta kalkún syngja bara þvílíkt pirrandi. Það sem samt pirrar mig mest hins vegar er það að lagið í sjálfu sér er ekki slæmt og ef að söngkonunnar tvær sem syngja með fiðurfésinu myndu bara syngja það einar þá myndi ég þess vegna halda með því. En þetta er bara hryllingur og ég vil það ekki áfram. Samt hef ég sterklega á tilfinningunni að fólk eigi eftir að elska þetta lag.
Ísrael
Ég elska þetta lag. Það heillaði mig alveg uppúr skónum bara á fyrstu tíu sekúndunum og því fór bara batnandi eftir það. Lagið er virkilega flott enda samið af henni Dönu International sem vann keppnina 1998 með laginu Diva. Samt er það besta við lagið að flutningur er bara alveg frábær og maður fer í strax í svona „mig langar líka“ fíling. Spái því án umhugsunar áfram.
Lettland
Pirates of the Caribbean æðið nær hámarki í framlagi Letta í ár. Í þessari sýingu fáum við að sjá sjóræningja hendast um sviðið með tilheyrandi hatta, fána, byssur og allt sem góður sjóræningi þarf.Nei, ég er ekki að sjá ofsjónir (trúðu mér ég gáði). Lagið er í sjálfu sér alveg ágætt en þetta minnir dálítið á barnaleikrit. Svo spurningin er hvort að þetta sé gott eða of kjánalegt. Spái því ekki áfram.
Einnig má minnast á það að kaldhæðnislegt er að í viðlaginu heyrum við „We‘re hi hi ho, we‘re hi hi hey“ sem hljómar pínu kunnulega.
Litháen
Söngvarinn hefur klárlega alveg svakalega rödd (þó að mér finnist hann pínu villtur á nokkrum stöðum) en það eina sem ég finn jákvætt við þetta lag. Spái því ekki áfram.
Malta
Lagið sem heitir Vodka er sungið af hinni 23 ára ofurmombu Morena. Ég varð þó fyrir vonbrigðum þegar ég las að Vodka fjallar ekki um drykkinn góða heldur um aðgangskóða. Lagið sem sagt fjallar um hernaðaraðgerð þar sem eins og áður var sagt er Vodka aðgangsorð. Ég veit ekki með ykkur en mér finnst þetta viðfangsefni pínu þunnt auk þess sem að myndbandið er dáldið tilgangslaust í mínum augum. Lagið er samt býsna gott og er vel flutt svo að ég spái því áfram.
Moldavía
Króatía hefur Hauk Morthens fíling. Moldavía hefur Ellý Vilhjálms fíling. Lagið er voðalega gamaldags og er bara mjög gott miðað við það. Það er einnig vel flutt en mig grunar að það eigi ekki eftir að falla í kramið hjá yngri kynslóðinni. Spái því ekki áfram.
Svartfjallaland (Montenegro)
Ágætt. Spái því áfram.
Holland (Netherlands)
Lagið er býsna dansvænt og alveg hægt að raula með því en engu að síður var það eitthvað sem pirraði mig við það. Kannski var það útaf því að söngkonan syngur þarna lag sem heitir Your heart belongs to me og í myndbandinu er hún með svona sakleysis glott og flytur lagið sem … jah, smábarn. Ég meina ég túlka það ekki öðru vísi miðað við umhverfið í myndbandinu (ef þið hafið ekki séð það þá skiljiði hvað ég á við þegar þið sjáið það). Einnig þegar ég fór að lesa mér til um söngkonuna þá fékk ég tilfinninguna að hún haldi að hún sé eitt af sjö undrum veraldarinnar. Jæja, þá er ég búinn að koma hatri mínu á söngkonunni úr kerfinu og get ég þá sagt að ég hlakka til að sjá það betur á sviði. Eflaust fíla margir lagið og því spái ég því ekki áfram EN það gæti komist áfram.
Noregur
Mér finnst lagið mjög gott. Þetta er svona alla my ideal vangalag það er ekki fjörugt en það er ekki þannig að maður er að sofna yfir því. Einnig er ekki hægt að kvarta yfir röddinni í henni Mariu enda hún með svona ekta ballöðu rödd. Mig grunar samt að sumum eigi eftir að finna lagið of venjulegt en við sjáum til. Ég spái því alla vega áfram.
Pólland
Lagið er mjög fallegt og vel sungið og ef það væri t.d. flutt í brúðkaupi (sem að mér sýnist að sé viðfangsefni lagsins) þá væri sko tissue á línuna og mikið klappað. Ég samt skil ekki alveg 100% hvað lagið er að gera þarna ég er svona 65% með því. En 65 er meira en 50 svo ég spái því áfram.
(Djöfulli eru menn lúnknir í stæinu öss)
Portúgal
Alveg frá því að ég byrjaði að fylgjast með keppninni þá hef ég aldrei séð gott lag koma frá Portúgal. Þetta lag er þó með því skárra sem komið hefur frá þeim því að ólíkt þeirra fyrri framlögum þá getur kellan sungið. Þetta er samt ekki gott. Spái þeim ekki áfram.
Rúmenía
Þrusuflott. Flott píanó ballaða sem að svo stækkar og er orðin að svona svakalegri bombu í anda Boccelli (ekki það að ég sé að líkja Vlad við blinda undrið en hann er nokkuð góður). Vona innilega að fólki eigi ekki eftir að finnast þetta of óperulegt því að ég spái þessu hiklaust áfram.
Rússland
Ég heyrt flottari raddútsetningu og hef einnig flottari falsettur en koma þarna fram. Ætlaði að segja að þrátt fyrir býsna óspennandi söng þá væri lagið ekki svo slæmt en þegar ég hugsaði aðeins um það þá eyðileggur þessi raddútsetning lagið. Spái þeim ekki áfram.
San Marino
Ég hef nú alveg heyrt meira grípandi lög en þetta var allt í lagi. Viðlagið var svona sæmilegt og annars flæddi þetta alveg ágætlega áfram. Spurning hvernig það verður eftir nokkrar hlustanir…. Æji, nei vitiði þetta var eiginlega ekkert sérstakt. Spái þeim ekki áfram.
Serbía
Serbar eru nú þegar komnir áfram svo að ég ætla ekkert að vera að sóa orðum á þetta. Nei.
Slóvenía
Fínasta danslag og í rauninni ekkert að því. Það er vel flutt og bara ágætis taktur í því en mér finnst eitthvað vanta. En þar sem ég finn ekki hvað vantar ætla ég að geyma að dæma það endanlega fyrr en ég sé það á sviði. Eins og málin standa núna spái ég því ekki áfram.
Spánn
Þetta var alveg virkilega virkilega slæmt. Laglína engin. Söngur enginn. Grín eitthvað. Gæði engin. Dómur bless bless. En bíddu viti menn haldiði ekki bara að Spánn sé þegar kominn áfram. Fjárinn.
Svíþjóð
Charlotte sem vann keppnina fyrir hönd Svíþjóðar árið 1999 er mætt aftur. Ég hef alla tíð fyrirlitið þessa konu en svei mér þá ég þarf að líta framhjá því í þetta skipti. Lagið er bara alla staði ferlega flott og er umgjörðin öll bara mjög góð. Lagið á klárlega heima í þessari keppni og spái ég því áfram.
Sviss
Loksins! Ætlaði að segja að myndi ekki koma ein svona ekta ballaða með karlröddd. Það hefur eiginlega alltaf verið eitt þannig lag og þau eru oft í mínu uppáhaldi eins og t.d. A Chaque Pas og Every Song is a Cry for Love. Ég er alveg svakalega hrifinn af þessu lagi og er það komið í topp listann hjá mér. Spái því áfram.
Tyrkland
Hresst og dansvænt lag. Þarf ekkert að eyða fleiri orðum á það nema bara að þetta er svakastuð. Spái þeim áfram.
Úkraína
Ekta Eurovisionlag. Þetta lag er klárlega að fara hátt með flottum takti, catchy viðlagi og svakalegri söngrödd. Þetta lag bíður einnig uppá awesome sviðsframkomu. Spái því áfram, ekki spurning.
Bretland
Það er sál í þessu. Ágætis lag og vel sungið en mér finnst þetta vera svona dáldið rúntlag þ.e.a.s. ágætis lag til að hafa svona undir þegar er verið að rúnta og spjalla saman. Við fyrstu hlustun get ég ekki alveg ákveðið hvort það sé að virka þarna en ég þarf þess ekki heldur því að Bretar eru komnir áfram.
Jæja þetta hafðist. Sumir dómarnir mínir voru kannski pínu innihaldslausir en 43 lög taka dáldið á manni.
Uppáhaldslög: Danmörk, Ísrael, Malta, Rúmenía og Sviss (einnig líst mér vel á Svíþjóð og Úkraínu)
Komið að ykkur að tjá ykkur.