Húkkurinn stolinn og allsber kall á fótboltavelli
Mikið hefur verið rætt um hana Silvíu blessaða undanfarna daga og virðist sem Íslendingar hafi breyst í bjána undanfarnar vikur - eins og þeir stundum gera. Má flokka þetta undir múgsefjun og fær maður bjánahroll trekk í trekk við að hlusta á yfirlýsingar þekktra Íslendinga í fjölmiðlum undanfarna daga sem þora ekki öðru en að lýsa því yfir hvað hún SN er kúl o.s.frv. Hafið þið spáð í að það er alltaf sagt: “..senda hana Silvíu Nótt” - halló, þetta er söngvakeppni, ekki furðufata/skemmtikraftashow. Ég hef taugar til keppninnar og einn af fáum sem þori að segja hverjum sem er að mér þyki hún afar skemmtileg. Hvers vegna tæmast göturnar á meðan skemmtunin er og Eurovisionpartý eru á hverju götuhorni? Er það vegna þess að okkur þykir keppnin svo leiðinleg? Nei, málið er að við erum svo hrikalega tapsár á þessu skeri að við svörum ósigri (ef ósigur skyldi kalla) með því að hefna okkar. Sendum Silvíu Nótt á þá! ha ha ha! En fyndið. Þetta er eins og að senda allsberan kall út á fótboltavöll. Og lagið hans Þorvalds er afar slakt. Hann segir sjálfur að það sé “húkkur” í því og það er rétt. Það verður “sönglag dauðans”, en það hugtak er notað yfir léleg lög sem maður fær á heilann án þess að vilja það. Hafið þið tekið eftir að húkkurinn sjálfur (“Til hamingju Íslands”) er nánast eins og húkkurinn í danska laginu frá því í fyrra: “I'm talking to you…” með Jacob Sveistrup. Spáið í þessu Næturgalar.