Hér á eftir fer umfjöllun um ÖLL lögin sem taka þátt í Eurovision keppninni í Riga í ár.
Ísland / Open Your Heart
Vissuð þið að Íslandi er spáð afar góðum árangri í keppninni í ár? Aldrei neðar en 3 sæti. Ójá, kannski Eurovision verði haldið í Egilshöllinni í Grafarvogi að ári. Leyfi mér nú kannski að efast um að það verði úrslitin en því er ekki að neita að Birgitta syngur eitt besta lagið í keppninni. Nú þarf Birgitta bara að læra að dansa og setja smá stroff í brjóstahöldin! 4/4 stjörnur
Austurríki / Weil der mensch zählt
Langsamlega versta lag keppninnar og ef þetta lendir ekki í neðsta sæti þá gef ég upp alla von fyrir þessa keppni. Eyði ekki fleiri orðum í þessa hörmung. Hauskúpa.
Írland / We've got the world tonight
Þetta lag gekk í gegnum svipaða eldraun og lagið hennar Birgittu, sakað um að vera stolið. Því er ekki að neita að það svipar óneitanlega töluvert til lagsins Fly On The Wings Of Love sem Olsen bræðurnir sigruðu með. Kannski lagið sé bara í sama stíl, eins og írska ríkissjónvarpið sagði. Gefum þeim séns. Lagið er allavega ágætt. 3/4 stjörnur.
Tyrkland / Everyway That I Can
Tyrkir halda fast við að senda þjóðlög í keppnina en breyta af vananum og syngja á ensku. 1/4 stjörnur.
Malta / To Dream Again
Í fyrra spáði ég Möltu og Lettlandi sigri, stóðst ágætlega því eins og þjóð veit sigraði Lettland og Malta varð í öðru sæti. Í ár get ég enganvegin lofað Maltverju góðu gengi. Lagið er ágætis melódía en röddin sem syngur það er ekki góð, nær því eins og söngkonunni Lynn Chircop, leiðist lagið og nenni vart að syngja það. Gellan sem syngur Nóatúnslagið lifði sig betur inn í lagið. Lagið tapar stjörnu við þetta og fær aðeins 2/4 stjörnur
Bosnía-Hersegóvína / Ne Brini
Grípandi lag flutt á þjóðtungunni. Í viðlaginu syngur íðilfögur stúlkan eitthvað sem líkist “marry me, marry me, sama er mér” en einhvernveginn efast ég um að textinn líti þannig út á prenti. Söngkonan hefur ágætis rödd en ég efast ekki um að enskuleysið skemmi töluvert fyrir henni. 3/4 stjörnur fyrir að vera ekta júróvisjónpopplag.
Portúgal / Deixa-Me Sonhar (so Mais Uma Vez)
Rita Guerra flytur lag sitt á portúgölsku og því hef ég ekki hugmynd um hvað hún syngur á svo dramatískan hátt. Hugsanlega syngur hún um að kaffið sé búið en líklegra er að hún syngi um að maðurinn hennar sé farinn frá henni. Hvur veit. Þetta er svolítið Bonny Tyler-legt lag og gæti vanist ágætlega. Enskuleysið skemmir fyrir og eins að það kemur í keppnina tíu árum of seint. Er í ágætisskapi og gef Ritu því 3/4 stjörnur
Króatía / Vise nisam tvoja
Þetta er allt í lagi. Jájá, sungið á Króatísku og skemmir auðvitað fyrir. En króötum finnst greinilega nóg að vera með og langar ekkert að vinna. 2/4 stjörnur
Kýpur / Feeling Alive
Æ, Kýpur stendur sig alltaf ágætlega í að senda sæta stráka í keppnina og það bregst ekki ár. Enrique wannabe fer í keppnina eftir lagahöfund sem langar gasalega mikið að semja lag fyrir áðurnefndan söngvara. Ég er voða veikur fyrir Enrique og ætla þessvegna að vera pínu veikur fyrir þessu wannabe-i. 3/4 stjörnur.
Þýskaland / Let's Get Happy
Hin þýska Lou flytur lag eftir hr. Siegel sem er óskoraður júróvisjón konungur Þýskalands. Eftir hraksmánarlega útkomu í fyrra þegar hann tefldi fram blindri stúlku hét hann því að taka ekki þátt aftur. Því miður stóð hann ekki við það og sendir í ár frá sér leiðinlegt lag sem veitir þó kærkomið tækifæri til að fylla á snakkið. 2/4 stjörnur
Rússland / Ne ver, ne boisja, ne prosi
t.A.T.u lellurnar flytja aðra útgáfu af All The Things She Wants. Þó lagið sé flutt á rússnesku eru dágóðar líkur á að Gísli Marteinn fari til Rússlands að ári. 1/4 stjörnur.
Spánn / Dime
Laginu sem spáð er sigri. Ég veit ekki… spænskan hrífur mig ekki og að vera tólfta í röðinni getur varla hjálpað henni mikið. Veit að Selma var númer 13 þegar hún sigraði næstum en ég blæs á það í ár. Síðustu ár hafa það verið löndin sem koma aftast í rásröðinni sem hafa skorað hæst. Sé ekki margt í ár sem gæti breytt þeirri stöðu. Þar að auki finnst mér lagið ekki mjög skemmtilegt, það endurtekur sig í sífellu og er aðeins of latino fyrir minn smekk. 2/4 stjörnur
Ísrael / Milim la'ahava
Voru Skriðjöklarnir fengnir til að semja ísraelska lagið? Hljómar þannig, satt best að segja. Dugir þessi umsögn ekki? 1/4 stjörnur
Holland / One More Night
Kunnuglegt lag sem er 10 árum hið minnsta á eftir samtímanum. Nenni ekkert að eyða of mörgum orðum í þetta. 2/4 stjörnur.
Stóra Bretland / Cry baby
cry, cry, baby, lie to me baby, bye baby, baby, bye, bye… Þetta er eiginlega textinn í hnotskurn. Hvað er eiginlega með Bretana? Geta þeir illa samið ágæt lög? Tímar Congratulations eru greinilega liðnir og það er engin von á sigri í ár, eins og bretar gætu haldið flotta keppni. 1/4 stjörnur
Úkraína / Hasta la Vista
Launbróðir Vilhjálms bretaprins syngur með röddu ekki ólíkri Freddys Mercury. Hann er sætur og lagið í stíl við Geirmund! Hver veit nema hann nái sæmilegasta árangri! 2/4 stjörnur
Grikkland / Never Let You Go
Þegar ég sá fyrst mynd af hinni grísku Mando, og sá nafnið hélt ég að þetta væri dragdrottning. Jámm… en svo reyndist ekki vera. Hefði eiginlega þurft að vera eitthvað svoleiðis til að fríkka upp á lagið og gera þetta á einhvern hátt eftirminnilegt. Það er ekki að takast eins og er. 1/4 stjörnur.
Noregur / I'm Not Afraid To Move On
Þessi ungi norski söngvari er greinilega mikill aðdáandi Billys Joel. Hann hefði bara þurft að fara í nokkra söngtíma. Það er svosem nægur tími fyrir hann áður en hann syngur þessa vögguvísu þann 24. maí 2/4 stjörnur.
Frakkland / Monts et merveilles
Sem eitt hinna stóru fjögurra landa sem aldrei falla úr keppni hefur Frakkland skapað sér sérstöðu með því að senda ALLTAF ballöður og láta sæta stelpu raula hana á frönsku. Sigurlíkur? Vanalega litlar en ekki má vanmeta rásröðina núna…
2/4 stjörnur.
Pólland / Zadnych granic
Neisko! Tvö tungumál! Þýska og pólska. Ef menntaskólaþýskan er ekki að bregðast mér núna (sem er þó mjög líklegt að hún geri) mun þetta lag vera friðaróður. Æ, bla, bla bla… þetta er svo klént lag eitthvað… 1/4 stjörnur.
Lettland / Hello From Mars
F.L.Y. flokkurinn flytur lagið Hello from Mars á heimavelli og gæti því hent stórslys og laginu gengið vel, vegna rásraðarinnar og vegna allra þakkarstigana sem heimalandið fær alltaf. Æ, gvuð forði okkur. 1/4 stjörnur
Belgía / Sanomi
Sanomi. Meina þau Suomi? Þessi tegund laga átti nokkru fylgi að fagna fyrir nokkrum árum þegar Norðmenn sigruðu með Nocturne og Írar með The Voice. Til allrar hamingju er sá tími liðinn og þetta lag er til þess eins gert að gefa fólki tækifæri til að gá hvað er á dagskrá hinna sjónvarpsstöðvanna. 1/4 stjörnur
Eistland / Eighties Coming Back
Ruffus flytur þetta afskaplega óeftirminnilega lag sem hugsanlega gæti samt komið á óvart á kvöldið með því að vera fyrir ofan miðju. Það kemur þá til af því að það er ólíkt öðrum lögum keppninnar. Hvað um það, óeftirminnilegt og frekar þreytandi lag sem væri betra að hefði verið eftir í Eistlandi. 1/4 stjörnur.
Rúmenía / Don't Break My Heart
Ætli rúmenar séu tilbúnir að halda keppnina á næsta ári? Það gæti nefnilega allt eins farið svo. Þó Rúmenum sé bara spáð 9. sæti í dag á vefsíðunni sem ég tek einna mest mark á fyrir þessa keppni er lagið þannig að það getur gengið í fólk og er á frábærum stað í rásröðinni. Þá er söngkonan Nicola sæt og ef sviðsframkoman er sæmileg má búast við að það endi mjög ofarlega. 4/4 stjörnur
Svíþjóð / Give Me Your Love
Veskú. Þessu lagi spái ég sigri þrátt fyrir allt. Sætt par í dúett og ágætt lag á besta stað í keppninni. Svíar eru líka ágætir í að halda svona keppni Globen 2004? 4/4 stjörnur.
Slóvenía / Nanana
Hin Slóvanska Karmen hefur greinilega farið í einn enskutíma áður en hún lærði textann á þessu lagi sem á ágæta sigurmöguleika. Einfalt formúlu-júróvisjónlag. 3/4 stjörnu