Að klára ritsmíð er frábær tilfinning og full ástæða til að fagna slíkum tímamótum. En eins og Grettir Ásmundarson sagði: „Eigi er sopið þó að í ausuna sé komið“.
Fyrsta uppkast að ritsmíð er næstum aldrei fullkomið. Sama hvort þér finnst það sem þú varst að enda við að skrifa vera fullkomið eða ömurlegt, þá er líklegt að þú hafir rangt fyrir þér. En ekki örvænta, lykilorðið er yfirlestur.

Nokkur ráð fyrir ritsmíðar sem þú hefur „lokið“:

1. Láttu textann liggja í nokkra daga áður en þú hann yfir aftur. Reyndu að hugsa ekki um hann á milli. Ef þér dettur eitthvað í hug sem þarf að laga skrifaðu það þá hjá þér til að laga þegar að því kemur.

2. Lestu textann nokkrum sinnum yfir með tilliti til ólíkra þátta. Einu sinni fyrir flæði, einu sinni fyrir staðreyndir, einu sinni fyrir málnotkun o.s.frv.

3. Prófaðu að lesa upphátt til að athuga hvort eitthvað hljómar undarlega.


Endurbótum á uppkasti er hægt að skipta í þrjár tegundir:

1. Stytting. Oft er fyrsta uppkast of langt. Eru upplýsingarnar svo miklar að lesandanum fara að leiðast þær? Eru öll orðin nauðsynleg? Er einhverju ofaukið, er eitthvað endurtekið að óþörfu?

2. Viðbætur. Er eitthvað sem vantar? Eitthvað sem þarfnast nánari útskýringar/lýsingar? Miðlar textinn öllum þeim skilaboðum sem þú vildir koma á framfæri?

3. Umorðun. Er textinn læsilegur, flæðir hann vel? Er hann skiljanlegur? Er orðanotkun og málfar í samræmi við persónurnar? Hæfir það lesendunum? Er samræmi í stílnum? Ertu að nota bestu orðin?


Ég hef aðallega talað um yfirlestur yfir efni og stíl. Yfirlestur og lagfæringar á málfræði, stafsetningu og greinarmerkjum eru algjörlega nauðsynlegar líka!
Það sem ég hef nefnt hér af atriðum til athugunar er ekki tæmandi listi – en alla liðið má endurtaka eins oft og nauðsynlegt er.

Þess má geta að þessi stutti texti hefur verið endurskrifaður einu sinni og yfirlesinn fjórum sinnum.
Forever is such a long, long time and most of it hasn't even happened yet.