Minnimáttarkennd.
Ég hata tilfinningar. Ég hata hvað þær stjórna gjörsamlega öllu sem ég geri; hvernig ég hugsa, hvernig ég tala, hvernig ég kem fram við fólk…
Það er alltaf verið að segja við mig að ég eigi ekki að láta tilfinningarnar mínar hlaupa með mig í gönur, stundum er það skynsemin og hausinn sem á að ráða för en ekki hjartað.
Það er alveg rétt. Það er bara fáránlega og fjandi erfitt.
Ég þoli ekki hvað ég get verið viðkvæm og tilfinningarík manneskja; ég þoli ekki hvað ég geri mikið úr hlutunum, hvað ég ýki allt í hausnum á mér, hvað ég er alltaf hrædd um að fólk bregðist illa við.
Þoli ekki hvað það liggur við að ég leggist niður í götuna og grúfi andlitið í lófunum þegar mér finnst einhver vera miklu fallegri, gáfaðri, skemmtilegri og betri manneskja en ég. Ég hata hvað minnimáttarkenndin lætur stundum harkalega til sín taka og er dugleg við það að brjóta mig niður; sjáðu – þessi er fallegri en þú, sérðu hvað þessi er miklu andlitsfríðari? Sérðu hvað þessi líkamsvöxtur gerir þig ljóta í samanburði? Sérðu hvað öllum líkar miklu betur við þessa, þú hefðir ekkert á móti því að fólk kæmi svona fram við þig, er það ekki? Og þú veist að sama hvað, þá er það ekki að fara að gerast? Veistu af hverju? Af því að þú ert ekki með jafn góðan persónuleika og þessi; þú gengur ekki um í jafn flottum fötum, hún málar sig fallegra en þú, hún er miklu skemmtilegri og opnari en þú, hún er miklu dýrmætari en þú. Þú ert ekki jafn merkileg og hún. Þú ert ljót og leiðinleg hliðina á henni.
Og af hverju ertu það? Kannski áttu það bara skilið. Kannski er þetta bara sanngjarnt.
Ég hata þessa tilfinningu. Hún er ekki stöðug hjá mér, en hún lætur alltaf vita af sér endrum og eins. Stundum kemur samt önnur tilfinning og reynir að berjast á móti og segir að stelpan þarna sé ófríð og fólk sé með vondan smekk ef því finnist hún eitthvað annað; stelpan er kannski með flottan rass og stór brjóst en fæturnir á henni eru alltof mjóir, kálfarnir of feitir, ennið of hátt, málingin of mikil o.s.frv. Persónuleikinn er kannski líka pirrandi, hláturinn ógeðslegur og hún er líka nautheimsk. Og athyglissjúk ofan á allt.
Kannski er þetta öfund. Kannski er þetta að reyna að brjóta einhvern annan niður til þess að líða betur með sjálfan sig. Kannski er þetta hvorugt, kannski er þetta bara skoðun. Sterk skoðun.
Kannski er stelpugreyið bara ómögulegt í manns augum, hver veit.
En kannski er það líka bara allt í lagi að rífa hana niður í huganum ef það lætur manni líða betur. Sama hvað hver segir, það lætur manni kannski ekki líða eitthvað betur með mann sjálfan – en það dreyfir huganum um stund, gefur manni útrás. Og minnir mann á að það er ekkert og enginn fullkominn.