Eitt af þeim atriðum sem maður rekur sig jafnan á er hvernig á að koma myndmáli til skila. Skiptir þá einu máli hvort um ljóð, smásögu eða skáldsögu sé að ræða. Það er nefnilega ekki hlaupið að því segja frá á þann hátt að sá sem les upplifi söguna. Hversu oft hefur maður ekki sjálfur hreinlega liðið inn í söguna og orðið hluti af henni? Séð allar persónurnar lifna á blaðsíðunum fyrir framan sig og verið algerlega hugfanginn.
Þetta er nefnilega merkilegur galdur, að skrifa þannig. Hver blaðsíða er svo gerð að þú líður inn í söguna og sérð hana ljóslifandi í huga þér. Jú, þetta er galdur, en ekki með öllu ógerlegur hverjum sem er. Þetta krefst jú af höfundinum þó nokkra hugsun, en er langt frá því að vera ógerlegt. Allt veltur þetta á tveimur einföldum hugtökum og hugsun höfundar.
Flest eigum við til, þegar við erum að segja frá eða skrifa, að ‘segja’ frá öllu. Ekki er óalgengt að sjá eða heyra línur eins og ….hann var í ljótum fötum, hún er glöð…en þetta eru línur sem eru sagðar. Hvaða myndir birtast í huga ykkar af þessum persónum? Oftar en ekki fylgja huglæg orð með í því sem er ‘sagt’. Ljótt, fallegt, lítið, stórt, mikið, glæsilegt osfrv. eru allt huglæg orð og gefa ekki af sér mynd.
Það sem er sýnt gefur hins vegar af sér mynd….Hann tók af sér köflótta bindið, hún brosti svo að það skein í hvítar tennurnar….þó svo að þessar myndir séu langt frá því að vera fullkomnar þá gefa þær einhverja mynd af persónunum. Hún er með hvítar tennur, hann er með köflótt bindi. En myndir eru nefnilega byggðar upp af smáatriðum. Sýna lítið í einu, ekki hlaupa til handa og fóta og byrja á endalausum lýsingum af persónum, náttúru eða umhverfi.
Takið eftir hvernig Gunnar Gunnarsson lýsir hérna einni persónunni í ‘Sælir eru einfaldir’.
”Þessi ólánslegi longintes með lotinn hrygg samfestar signum öxlum, þaðan sem dingla stórar krumlur á löngum tágamjóum handleggjum, og krýndur kolli sem minnir átakanlega á apahaus.”
Þið takið fljótlega eftir að þarna er margt sagt og lítið sýnt. En seinna í sömu bók kemur lýsing sem er virkilega vel gerð.
“Þar gaf á að líta, og var ég óvanur þeirri sjón er fyrir augu bar. Gegn um tveggja rúðu glugga uppi undir lofti lagði daufa skímu inn í kompu, þar sem ekki voru önnur húsgögn en auvirðilegt flet og ofurlítið borðkríli. Hálfur út úr rúminu með vangann við steingólfið og handleggina teygða fram með útglenntum fingrum lá nakinn mannslíkami, skrokkurinn blár með gulum flekkjum og út úr nefi og munni hafði runnið dökkur vessi og myndað poll kringum höfuðið.”
Þessi lýsing er með öllu mun magnaðari. Takið eftir hvernig lýsingin byrjar. Tveggja rúðu gluggi, einfalt ekki satt? Síðan kemur lýsingin á líkamanum og hann byrjar á því sem er á gólfinu en færir sig svo ofar en síðan endar hann aftur við höfuðið. Þetta er virkilega sterk lýsing, þrátt fyrir að þarna sé lýst frekar ógeðfelldum hlut.