Þessi goðsögn um vinnubrögð rithöfunda er ansi langlíf og föst í huga þeirra sem eru að taka sér skriftir fyrir hendur. Samkvæmt ævisöguritaranum Kenneth S. Lynn eyddi Hemingway miklu af Hveitibrauðsdögum sínum, árið 1927, í það að endurskrifa uppkast af eldri sögu sem gerðist í Ebro-dalnum spænska, sem seinna varð að ‘Hæðum eins og…’. En útgáfa Hemingways um fæðingu sögunnar er miklu meira grípandi og fellur betur að þessari ímynd rithöfunda; að þeir setjist niður fyrir framan ritvélina (nú til dags tölvuna), dragi djúpt að sér andann og skrifi i einu kasti á milli klukkan tvö og fjögur eitthvað sem verður ógleymanlegt meistaraverk. Þess á milli sitja þeir svo reykjandi á kaffihúsum með vínglas milli fingranna og láti fleygar setningar falla.
Fyrir flestum starfandi rithöfundum liggur þó galdur sögunnar í endurskrifunum. Einhverjir þeirra vilja meina að sagan verði ekki til fyrr en einmitt þegar maður skrifar hana upp í annað og þriðja skiptið; að grindin skipti litlu sem engu máli – stíllinn verði ekki til fyrr en þú endurskrifar. Eitt helsta meistaraverk Marcel Proust, ‘Í leit að glötuðum tíma’, varð til að mynda ekki að því sem það er á einni nóttu. Þvert á móti varði Proust stórum hluta ævi sinnar í það að leita að þessum neista sem einkennir söguna. Löngu eftir hans dauða fundust sögur eftir hann sem þykja minna um margt – í raun eru setningar oft á tíðum orðrétt eins – á fyrsta hluta ‘Leitarinnar’, ‘Leiðin til Swann’. Þannig skrifaði Proust sögurnar upp aftur og aftur, þangað til hann var orðinn nokkuð sáttur við útkomuna.
Þannig er ekki nóg að fá góða hugmynd. Það þarf að hafa vilja og metnað fyrir því að gera hana að einhverju almennilegu. Góðum sögumanni nægir ekki að hafa orðaforða á við Þórberg Þórðarson, það þarf að hafa vit á því að segja söguna með hrynjanda og nef fyrir aðstæðum og sérkennum umhverfisins og einstaklinganna sem skipa það.
Og um leið er ekki nóg að hafa hugmyndaflug eins og Tolkien sjálfur, það þarf að hafa nægjanlega þekkingu á tungumálinu sem skrifað er á, og málfræði þess, til þess að setja þetta ímyndunarafl niður á blað fyrir aðra að lesa, skilja og hafa gaman að.
En umfram allt þarf að hafa þolinmæði til að pússla þessu saman á þann hátt að úr verði Saga. Og samt er saga ekki bara ákveðinn fjöldi fallegra orða sem hripuð hafa verið í réttri röð – til þess að gera góðri sögu almennilega skil þarf að byrja á því að vita hvaða áhrif hún hefur haft á mann, hvort heldur um er að ræða dramatíska sögu sem grætir þig eða vindur einhvern óþægilegan hnút í maganum á þér, eða sögu sem kemur þér í gott skap og fær þig til að brosa með heiminum á einhvern óræðan máta.
Það er ekki nóg að vilja skrifa góðar sögur. Eins og á við um allt annað, þarf að vinna markvisst að því. Því þó menn geti verið fæddir með nef fyrir góðum frásögnum er ekki þar með sagt að einungis þeir geti haft lifibrauð af því að segja sögur. Skáldskap, þvert á vinsæla trú fólks, er hægt að kenna. Máltilfinning getur verið áunnin, og sagnauppbyggingu er hægt að læra.
-I don't really come from outer space.