Einu sinni var frægur íslenskur höfundur spurður að því hvort að það væri nokkuð mál að skrifa bækur. Afhverju spyrðu að því svaraði rithöfundurinn. Jú, sagði sá sem átti spurninguna, því bækurnar sem viðkomandi rithöfundur skrifaði virkuðu svo einfaldar að gerð, að slíkt hlyti hver sem er að geta. Rithöfundurinn hló og svaraði því þannig til, að fyrst svo væri, hvers vegna skrifuðu þá ekki fleiri þannig.
Það er nefnilega ekki hlaupið að því að skrifa, hvort sem um ræðir ljóð, smásögur eða skáldsögu. Slíkt tekur tíma og þarfnast þó nokkurar yfirlegu. En það er ekki nóg að bara setjast niður og byrja að berja lyklaborðið. Það þurfa nokkur atriði að vera til staðar hjá viðkomandi áður en lagt er af stað. Þörf, hæfileikar, agi og leikni eru grundavallaratriði ritlistar.
Þörf.
Það er til fullt af fólki sem er vel að máli farið og frábærir sögumenn, en hefur bara alls enga þörf fyrir það að skrifa niður allt sem um huga þess fer. Oft hefur verið sagt að hjá listamönnum þarf að vera einhver nístandi sársauki sem knýr þá til sköpunar, eitthvað sem kvelur hjartað en það er nú kannski fullrómantísk hugmynd. En hitt er annað mál að án þarfarinnar er ekki miklar líkur á að rithöfundar myndu nokkurn tímann skrifa mikið. Þörfin er eitthvað sem kemur að innan og er engan veginn hægt að kenna.
Hæfileikar.
Það er ekki verra að hafa einhverja hæfileika á sviði ritlistar, hafðirðu þörf á að setja í sífellu niður á blað þínar helstu hugsanir. En því miður er þeim allt of oft áfátt. Halldór Laxness er gott dæmi um rithöfund sem hafði mikla hæfileika og nýtti þá til hins ýtrasta. Hæfileikar birtast í ýmsum myndum, sumir eru snillingar málsins, aðrir búa til frábært myndmál á meðan enn aðrir eru sagnamenn af guðs náð. En allir búa þeir yfir hæfileikum af einhverri gerð. Hæfileikar er meðfæddir og verða ekki kenndir.
Agi.
Þú þarft að geta beitt sjálfa(n) þig aga. Það að skrifa er vinna og ekkert annað. Þú þarft að geta neytt sjálfan þig til að setjast niður og vinna, kannski með ákveðið ljóð eða smásögu í nokkra daga eða vikur, svo ekki sé nú talað um skáldsögur sem tekur margar mánuði að skrifa. Án aga er ekki líklegt að þú komir miklu í verk. Aga er hægt að kenna, en slíkt tekur yfirleitt langan tíma.
Leikni.
Til að öðlast leikni á sviði ritlistar er aðeins tvennt til ráða. Í fyrsta lagi þarf maður að skrifa, skrifa, skrifa og skrifa. Því meira sem maður skrifar, því auðveldara verður það. Þeir sem aldrei skrifa neitt, verða ekki betri á meðan. Þess vegna er ágætt ráð að skrifa alltaf eitthvað, alltaf á hverjum degi að setja eitthvað niður á blað og hugsa um það. Hitt ráðið er að lesa. Þeir sem ekki lesa, hvort sem það eru íslenskar eða erlendar bækur, þeir eru fáækari fyrir vikið. Það er nefnilega ekkert að því að sjá og finna hvernig þeir sem á undan hafa komið hafa gert hlutinn. Oftar en ekki, þegar ég lendi í vandræðum, þá finnst mér ágætt að grípa bók og byrja að lesa. Fyrr en síðar er ég búinn að finna lausn á vandamálinu. Leikni er hægt að kenna.
Ef að þessi atriði eru nokkurn veginn til staðar, ætti ekki mikið að geta staðið í vegi fyrir því að þið getið orðið rithöfundar. En þetta er nú samt nokkuð mikið að uppfylla. Því, eins og rithöfundurinn sagði, ef það væri jafn auðvelt að skrifa og það virðist, hvers vegna eru ekki fleiri góðir rithöfundar til?