Hún sér lítið blóm, tekur það upp og rúllar því milli fingranna sinna. Litla blómið er blátt með svörtum kjarna. Þetta blóm er ansi furðulegt, hugsar hún með sjálfri sér meðan hún plokkar laufin af, eitt í einu. Himininn er heiðskýr, enda hinn besti sumardagur. Stiklandi yfir ána sér hún lítinn gullitaðan fisk. Hún stoppar og veltir fyrir sér hversu skrýtin áferðin er á þessum litla fisk. Hana langar að snerta  hann, en fiskurinn syndir of hratt og er þotin úr augnsýn á örskotastundu. ,,Rosalega er allt skrýtið í dag" tuldrar hún, en samt er ekkert skrýtið að sjá. Hún horfir í kringum sig, sér grænu trén dansa í vindinum og grasið svífa í takt. Þau dönsuðu saman, tréð og grasið, taktfast og látlaust. Svo fullkomið.
                 Hún gengur meðfram ánni og fjallstindir fara að sýna sig við sjóndeildarhringinn. Hún staldrar við til að njóta umhverfisins og festa það í minni sitt, lokar augunum og lætur sig detta aftur. Hún finnur fyrir hárinu fjúka meðan hún fellur í gegnum loftið, en rosalega er jörðin langt í burtu. Hún fellur þar til hún opnar augun, en þá stendur hann fyrir framan hana. Hann horfir djúpt í augu hennar og glottir. Allt er dimmt í kringum þau, það eina sem þau sjá er hvort annað. Hann tekur í hendi hennar, heitri og rakri hendi sinni. Hún titrar. Hvorki af kulda né ótta, heldur af spenningi.           
         Hann labbar af stað og hún á eftir. Inn í tómarúmið. Hár foss byrjar að myndast og tré spretta upp úr grasi allt í kringum þau. Fuglar fljúga í gegnum fossinn eins og hellir sé þar fyrir aftan. Hann sér fuglana og hleypur í fossinn haldandi föstu taki í hendina á henni. Bleytan umlykur þau og þau staldra við, aðeins til að finna fyrir vatninu flæða í gegnum hárið þeirra og fötin. Þau ganga áfram í gegnum fossinn, en handan alls vatnsins sér hún sjálfa sig. Hún sleppir hendi hans, gengur nær og sér að þetta er spegill. Spegill sem nær jafn langt og augað eygir. Hún sér sjálfa sig, en samt er eitthvað bogið við þessa spegilmynd. Hún fer ennþá nær og er komin alveg upp við spegilinn þegar hún sér að þetta er ekki andlitið hennar, ekki eins og það á að vera. Andlitið er fölt, með fjólublá bauga sem umkringja lokuð augun. Hún er dáin. Ljós birtist í spegilmyndinni, ljós sem gefur henni hlýju og mikla öryggistilfinningu. Hún veltir þessu fyrirbæri fyrir sér litla stund, en þá stækkar ljósið og breytist í göng. Furðulostin snýr hún sér við og sér hann horfa aðdáðunar-augum á þessi göng. Hann gengur hægt að henni og hvíslar „loksins“, tekur í hendi hennar og eins og dáleidd ganga þau inn ljós-göngin. Ljós-göngin sem leiða í hinn fullkomna heim.
Tralala