————————————————————————————————————————
Það er hrekkjavökukvöld.
Kvöldið þegar börn klæða sig upp í allskyns búninga og sníkja nammi frá nágrönnum sínum.
Það hlýtur að vera gaman. Rosa fjör.
Ég veit það samt ekki. Ég hef aldrei farið.
Ekki að mig langi ekki til þess. Síður en svo.
Sjáðu til, ég er mállaus. Og málleysingjar geta ekki farið með á svona skemmtanir.
Það segir mamma. Og pabbi. Og systkinin mín þrjú.
Þau eru heilbrigð. Stolt foreldra okkar.
Ég er meira svona í skugganum. Í felum, jafnvel.
Ég veit ekki alveg hvenær þessi feluleikur byrjaði.
Var það þegar ég var þriggja og fór í fyrsta skipti á leikskólann, og allir krakkarnir gerðu grín að mér og neituðu að hafa mig með, af því að ég gat ekki talað? Eða þegar ég var fimm og litla systir mín hrinti mér út úr rólunni, af því að ég gat ekki sagt henni að núna væri ég að róla? Eða jafnvel þegar ég var sjö og fótbrotnaði, og þurfti að þola þjáningarnar í viku áður en mamma fattaði hvað var að, af því að ég gat ekki sagt henni það?
Ég veit það ekki. Hef ekki hugmynd um það.
Ég er þrettán ára núna.
Minn æðsti draumur er að fá að vera með á hrekkjavökunni.
Bara einu sinni.
Það er allt sem ég óska mér.
Mín heitasta ósk, sem líklega mun aldrei rætast.
Enginn finna okkur má undir fanna hjarni; daga þrjá yfir dauðum ná dapur sat hann Bjarni.