Já, mér var falið að semja litla sögu og segja frá hugsunum einnar persónunnar í þeim hluta. Ég fór kannski ekki beint hefðbundnu leiðina en ætla að deila sögunni hérna og sjá hvað ykkur finnst.
—
„Æj, hvað tíminn líður hægt“, hugsaði það.
Og já, mikið afskaplega hafði það rétt fyrir sér. Tíminn á þessum afvikna fornstað rétt tifaði, sekúndu fyrir sekúndu, hver sekúnda sem mínúta og hver mínúta sem klukkustund. Ekkert gerðist , ekkert gerist og ekkert mun gerast.
En þrátt fyrir sleitulausan sólarhring, skafandi vetra og sólfyllt sumur, var þó þreytan sem á það seig enganveginn nærri því að saxa það niður, því því leið í friði, niður lækjarins ræktaði vorsönginn, söng með grænku sumarsins, ferðaðist með farfuglum haustsins og faldi sig með fönn vetrarins á meðan restin söng sinn eigin söng, misfagran en tíðindalítinn. Já, tíminn leið leiðinlega hægt, þó enginn væri að kvarta.
Stundum var fólk. En oftast var ekki fólk. Stundum voru kindur, en oftast voru alls engar kindur. Stundum komu hestar, en þeir komu samt aldrei, nema sjaldan og þá ekki einir, nema varla.
Svona var lífið og svona vildi það vera, ruglingslegt og leiðingjarnt, þurrt eða vott en þó, þrátt fyrir allt, var það bara. Það hafði alltaf verið og myndi alltaf vera, nema kannski ef, en ef kom ekki á þessum slóðum, svo þetta ef var eiginlega ekki, nema varla.
Eitt var þó óskeikult og ánægjulegt, braut upp dagana á sama tíma og það braut þá niður, fagurt sem ekkert annað og minnisvert á við löndin. Einu sinni á dag var þessi staður Eden án snáks og himnaríki án engla, engir nema mennirnir og þeirra fylgiskepnur.
Þegar sú stund nálgaðist til að birta upp enn einn daginn með því að myrkva hann nálguðust fimm ferðalangar með búslóð til að brjóta upp eilífðina um stund.
„Já“, hugsaði búið í Urðarseli, „alltaf hafa þau verið falleg hér, sólarlögin.“