Ég sit inni í stofu og horfi út um gluggann. Tikkið í gömlu klukkunni yfirgnæfir öll önnur hljóð. Hærra og hærra; tikk, takk, tikk, takk.
Einn og einn bíll líður hægt framhjá glugganum. Það er sunnudagsmorgunn og enginn heima nema ég. Ég sit með hökuna á hnjánum og loka augunum.
Ótal hugsanir þjóta í gegn um huga minn. Ég hugsa um allan þann tíma sem við vorum saman.
Hvernig þú horfðir alltaf á mig, eins og ég og þú værum einu manneskjurnar í heiminum. Ég man hvernig þú hélst utan um mig. Þétt og ákveðið, eins og þú vildir aldrei sleppa mér. Ég man hvernig mjúkar varir þínar snertu mínar og hvíslaðir lágt að þú vildir alltaf vera með mér. Við vorum svo hamingjusöm ég og þú, einu sinni.
Ég sá þig um daginn. Ég hafði ekki kjark í mér til að heilsa þér. Það var þá sem ég fann að ég saknaði þín.
Ég þurrka einmana tár af vanga mínum, og lít út um gluggann. Lítill spörfugl hleypur um í blautu grasinu og hristir sig, svo flýgur hann í burtu, flýgur út í lífið. Bara ef ég gæti flogið í burtu.