Gaddakylfan 2009
Fréttatilkynning 30. mars 2009
Mannlíf og Hið íslenska glæpafélag óska eftir sögum í hina árlegu glæpasmásagnakeppni Gaddakylfuna sem afhent verður í vor. Höfundar hafa að mestu frjálsar hendur svo lengi sem þeir fást við glæpi af einhverju tagi í smásögunum og haldi sig innan 2.500 orða lengdarmarka.
Tekið er á móti sögum á netfanginu gaddakylfan@birtingur.is. Þriggja manna dómnefnd, skipuð fulltrúum Mannlífs og Hins íslenska glæpafélags, tekur síðan við þeim og velur þær bestu úr. Þess er gætt að dómnefnd viti ekki nöfn höfunda sagnanna.
Skilafrestur rennur út klukkan 23.59 þann 30. apríl og verða úrslit kunngjörð í tengslum við ráðstefnu Skandinaviska Kriminalsallskapet, sem eru regnhlífarsamtök norrænna glæpasamtaka af bókmenntalega taginu, hér á landi í lok maí.
Gaddakylfukeppnin er nú haldin í sjötta sinn. Glæpafélagið hélt keppnina fyrst í samvinnu við Grand Rokk árið 2004 en ári síðar hætti Mannlíf sér út á refilstigu glæpasagnanna, gekk til liðs við Glæpafélagið og síðan þá hefur keppnin verið kennd við Gaddakylfuna, vígalegan verðlaunagripinn sem veittur er þeim sem skrifar bestu smásöguna hverju sinni.
Verðlaun verða veitt fyrir þrjár bestu sögurnar að mati dómnefndar. Höfundur bestu sögunnar fær Gaddakylfuna, sem listakonan Kogga hannar, og hundrað þúsund krónur. Vegleg verðlaun verða veitt fyrir annað og þriðja sætið sem kynnt verða síðar. Þá verða verðlaunasögurnar þrjár birtar í bók sem mun fylgja Mannlífi sem kemur út daginn eftir verðlaunaafhendinguna. Mannlíf áskilur sér einnig rétt til þess að velja fleiri innsendar sögur til birtingar í glæpasagnakverinu.
Sigurvegari Gaddakylfunnar 2008 var Lilja Magnúsdóttir með söguna Svikarinn, í öðru sæti varð Dýragarðurinn eftir Val Grettisson og Hönnu Ruth Ólafsdóttur og þriðja sætið féll í skaut Hilmars Arnar Óskarssonar fyrir söguna Eldur.
Þátttaka í Gaddakylfunni síðustu ár hefur verið afar góð. Í fyrra bárust um þrjátíu handrit en þegar best lét fór fjöldinn yfir sjötíu.
http://blogg.visir.is/fm957/?p=196
Frétti þetta frá einum af meðlimum Gaddakylfunnar, ákvað að benda ykkur ritglöðu hugurum á þetta :)
kveðja Ameza