Heiða litla systir mín gengur oft og talar í svefni. Það er stundum pirrandi því hún kemur alltaf inn í herbergið mitt og vekur mig með undarlegu blaðri. Samt hef ég oft spjallað við hana og hlegið mikið enda athugasemdir hennar út í hött. Eftirminnilegast er þó þegar ég vaknaði við að hún væri að gramsa í skápnum mínum.
-Hvað ertu að gera? spyr ég
-Ég finn ekki bíllyklana, ansar Heiða.
-Þú ert níu ára og kannt ekki að keyra! segi ég.
-Það er vegna þess að kexið er búið, muldrar hún og hættir að gramsa og snýr sér að mér. Augun eru hálf opin og hún heldur á sokkapari.
-Hvað kemur það málinu við? spyr ég og reisi mig við.
-Þá þarf allavega ekki að ýta á takkann.
-Hvaða takka?
-Hundinn hans Gunnars, hún brosir og glennir upp augun.
-Allt í lagi, viltu fara?
-Þá getum við búið til snjókarla!
-En það er sumar! ég baða út höndunum og stend á fætur.
-Afhverju?
-Hef ekki hugmynd, segi ég hálfpirruð en samt brosandi.
-En það gæti kviknað í, veinar hún.
-Hvað meinarðu?
Hún skiptir um umræðuefni.
-Neisko! Fann ég ekki jólapakkann frá því systir mín fæddist! hýn lyftir sokkaparinu sviplaust.
-Þetta eru sokkar, upplýsti ég.
-Ég veit, systir mín er líka rosa leiðinleg. Kannski ég ætti að fela pakkann fyrir henni, blaðrar hún og treður sokkunum ofan í buxurnar sínar.
-Sjáumst á körfuboltaæfingu! segir hún síðan og lyftir höndinni í kveðjuskyni en færir sig þó ekki um fet.
Eftir smástund gefst ég upp og held á henni inn í rúmið sitt og legg hana þar. Svo fer ég með höndina ofan í náttbuxurnar til að sækja sokkana. En í sama bili vaknar hún og lítur á mig.
-Hvað ertu að gera?