Ást mín á honum fleytti mér áfram á dimmum dögum og það sem við áttum saman verður aldrei tekið frá mér. Nú stend ég hér í flæðarmálinu og rígheld enn fast í lífvana hönd hans. Ég græt ekki, sorg mín er tárum þyngri. Ég mun aldrei framar sjá glaðlega andlitið hans eða heyra hvellan hláturinn. Aldrei aftur mun ég fá hnyttin tilsvör við hinum og þessum atvikum og aldrei aftur mun hann hjúfra sig undir sængina mína á nóttunni. Allir stundir sem að við eyddum saman fljúga fyrir augun á mér og allar minningar, góðar og slæmar, rifjast upp. Ég á orðið erfitt með andadrátt. Heyri sírenur í fjarska og reyni að snúa mér við en get það ekki. Allt í einu er gripið um öxlina á mér, ég er beðin um að sleppa af honum takinu. Ég losa aðeins takið en sleppi ekki, ég læt hann ekki fara úr fanginu á mér og ég sleppi ekki takinu af hönd hans. Kona kemur og talar við mig, ég heyri ekkert sem hún segir. Ég stend bara frosin með hann í fanginu, með lófa hans í mínum. Konan tekur máttvana líkama hans blíðlega úr fangi mínu og ég læt undan. Ég fel andlitið í höndum mér og brest í grát.
Konan er ennþá hjá mér þegar ég leggst undir sæng og reyni að festa svefn. Ég get ekki sofið, ef ég sofna dreymir mig aðeins lífvana andlit hans og hjálparleysið sem flæddi um mig þegar ég sá að ég gat ekkert gert. Sektarkenndina sem kom þegar ég áttaði mig á því að ég gat ekki bjargað honum, gat ekki gert neitt. Ég ligg andvaka alla nóttina meðan konan talar eitthvað við mig. Ég er farin að ranka við mér og skynja eitt og eitt orð. Áfallahjálp. Jarðaför. Fjölskylda. Vinir. Áttar hún sig ekki á því að ég missti ljósið í lífi mínu, einu vonina sem ég hélt í á erfiðum tímum, ljósið sem lýsti mér um dimma daga. Ég vildi óska að hann væri hér enn. Vildi óska að ég hafi áttað mig fyrr og hlaupið fyrr á eftir honum. Vildi óska að ég hafi ekki farið á ströndina með honum. Aldrei aftur mun ég sjá hann. Aldrei aftur munum við hlæja saman. Aldrei aftur, aldrei, aldrei.
Aldrei aftur mun ég heyra : “Mamma sjáðu, ég teiknaði handa þér mynd!“