Ég setti þessa sögu í dálkinn Örsögur en þetta fær engan lestur þar ákvað því að færa þetta hingað. Ég breytti líka titlinum.
Um leið og ég sé strákinn sé ég að hann er frekur.
Hann stendur fyrir framan nammibarinn og öskrar frekjulega á mömmu sína sem getur ekkert gert. Hann hoppar upp í loftið og stappar fótunum, íklæddum stígvélum, í gólfið.
Hann er rauðhærður, feitur og greinilega einstaklega frekur.
Við könnumst öll við svona krakka, í búðinni, í bíó eða bara úti á götu. Við höfum öll séð svona frekjustampa.
Krakkinn verður bara leiðinlegri og leiðinlegri og er byrjaður að öskra blótsyrði, sem enginn svo ungur ætti að þekkja, í áttina að mömmu sinni.
Aumingja konan, að þurfa að kljást við svona barn.
Hún er byrjuð að gráta og krakkinn byrjaður að sparka í hana.
Núna hleypur stráksi eins og vitleysingur út um alla búðina og öskrar að mamma sín sé tík. Fólkið lítur hissa á barnið. Sumir vorkenna mömmunni en aðrir ásaka hana í hljóði um að vera léleg mamma.
En þau eiga ekki að ásaka hana. Þau eiga að ásaka mig.
Þau eiga að ásaka mig fyrir að taka ekki þátt í uppeldinu á mínu eigin barni.
Mínu eigin rauðhærða, feita og freka barni.