Hún var að kafna. Hvað átti hún að gera núna? Hjartað hamaðist í brjóstinu á henni og það suðaði í eyrunum á henni. Henni sundlaði. Hún andaði ótt og títt og fann hvað kökkurinn í hálsinum magnaðist upp við hvern andardrátt. Hún varð að komast í burtu. Í burtu frá öllum, slaka á. En hvert ætti hún svosem að fara? Hún vissi það ekki.
Hún fór úr íbúðinni sem allar minningarnar tilheyrðu og út undir bert loft. Rigningin skall á henni en hún tók ekki eftir því, hún var víðs fjarri. Bæði í tíma og rúmi. Hún ráfaði um göturnar en hversu hratt sewm hún labbaði og hljóp gat hún ekki losnað við æpandi sársaukann í hjartanu sem var að gera útaf við hana. Hún varð að komast í burtu, en sama hvert hún fór fylgdi alltaf tómleikinn. Ágerðist með hverri mínútunni. Varð svo sterkur að hún efaðist um að geta þolað meira, en alltaf ágerðist hann. Henni fannst vanta hluta af hjarta sínu. Það var rifið svo harkalega úr henni að henni fannst ógjörningur að púsla því saman aftur.
Hún var svo niðursokkin í eigin hugsanir og sársauka að hún tók ekki eftir því hvar hún var stödd. Hún bara hélt áfram, knúin áfram af sársaukanum og einmanaleikanum sem lagðist yfir hana eins og mara. Loks áttaði hún sig á því hvar hún var og tók eftir rigningunni. Hún var holdvot. Hún settist undir ljósastaur og leyfði birtunni að baða sig í þeirri litlu von að ljóstýran gæti tekið allt það slæma í burtu. Köfnunartilfinningin var að verða óbærileg og fannst hún myndi aldrei sjá glaðan dag aftur. Hún tók ákvörðun.
Með nýrri orku stóð hún upp og hélt göngu sinni áfram. Þegar hún kom að göngubrú yfir umferðargötu hægði hún á sér og stoppaði svo á henni miðri. Hún stóð þar grafkyrr og sársaukinn helltist yfir hana aftur. Hún tók ákvörðun. Hún snéri sér að handriðinu og tók skref í áttina að því. Hún var komin alveg að handriðinu og hélt krampataki í það á meðan umferðin þaut hjá fyrir neðan. Hún hóf að klifra og var komin með annan fótinn yfir handriðið þegar hún áttaði sig á því sem hún var að gera. Hún flýtti sér að klifra til baka og þegar báðir fætur voru komnir á fasta steypuna fann hún fyrir örlitlum létti og hugsaði “Hann er ekki þess virði að deyja fyrir!!!”