“Ég vil ekki vera með þér lengur,” sagði hún.
Hann starði á hana þegjandi, of undrandi til þess að geta sagt eitthvað.
“Hvað áttu eiginlega við?” spurði hann, þegar hann loks fékk málið.
“Skilirðu ekki mannamál?” sagði hún örg.
“Hvað meinarðu eiginlega? Hvað áttu við?” Gráu augun voru algerlega skilningslaus.
“Ég vil ekki vera með þér, trega barn,” svaraði hún snúðugt, sneri sér við og gekk burt.
“Margrét!” Hróp hans barst í gegnum kalt loftið.
En stúlkan heyrði ekki til hans. Hann lét sig falla, tók ekki eftir kuldanum, vissi ekki hvað hann ætti að gera, hugsaði um það eitt að ást hjarta hans var farin, farin að eilífu.
“Hvað er eiginlega að þér?” hvein í einhverjum nálægt honum, köld röddin reif hann upp úr dapurlegum hugsunum sínum.
Hann leit hægt upp, og kipptist við þegar hann sá kuldann í svörtum augunum sem störðu á hann.
“Það kemur þér ekki við,” ansaði hann, áður en hann stóð á fætur, sneri sér við og hljóp í burtu.
Hann hugsaði ekki um að þerra tárin, þau gusuðust úr gráum augunum og féllu á hrímað grasið á skólalóðinni. Dofinn hugur hans hugsaði aðeins um það að komast burt. En hvert? Loks náði skynsemin yfirhendinni.
“Ég fer heim,” svaraði hann sjálfum sér upphátt áður en hann hljóp af stað, nú í gegnstæða átt.
Tárin láku í stríðum straumum, hann sá ekkert fyrir þeim, en fæturnir báru hann sjálfkrafa heim. Hann vissi að enginn var heima, ekki var von á neinum fyrr en seint um kvöldið. Þegar hann loks komst heim lagðist hann niður á rúmið sitt, og grét sjálfan sig í svefn.
“Margrét!” hrópaði hann aftur og aftur úr svefninum, en enginn heyrði til hans.
Hann var aleinn, unglingspiltur í blóma lífsins, en samt vildi hann ekki lifa lengur. Hjartað var brotið, myndi það einhvern tíma verða heilt aftur?
* * *
Nú er Pétur þrítugur. Hann á eiginkonu og þrjú börn, en hann hefur aldrei gleymt Margréti. Hjartað er enn brotið, börnin eða eiginkonan hafa ekki fyllt gapið sem enn er autt í hjartanu. Hann hugsar alla daga um Margréti, syrgir ástina sem hann missti. Hann er að gefast upp á lífinu; en hann lifir fyrir börnin sín. Hjarta hans verður aldrei heilt að nýju, gapið verður aldrei fyllt aftur. Hann fer til sálfræðings tvisvar í viku, en meðferðin gengur hægt og sárið er enn ekki lokað, þrátt fyrir að fimmtán ár séu liðin.
Þetta er sorglegt, en ég ákvað að reyna mig við þennan smásagnaflokk.
Enginn finna okkur má undir fanna hjarni; daga þrjá yfir dauðum ná dapur sat hann Bjarni.