Þessi lyklakippa er búin að hanga á korkinum síðan elstu menn muna, eða svo gott sem. Við höfum öll grandskoðað hana fram og til baka og reynt að finna út hver eigandinn sé. Lyklarnir eru þrír; sá minnsti líklega af dagbók, þannig að eigandinn er 80% líklegri til að vera kvenkyns. Annar er af íbúð, sem stendur á B22. Við vitum ekki hvað það þýðir, en þetta gæti verið í stórri blokk. Sá þriðji er líklegast lykill sem leiðir að herbergishurð, fjöldaframleitt eintak. Kannski leigði manneskjan herbergi í íbúð.
En lyklakippan sjálf segir líka mikið um hinn týnda eiganda. Það er nefnilega hann Æðstistrumpur í öllu sínu veldi. Made in Chine með járnhringinn fastan við húfuna. Það sést talsvert á greyinu. Hægri fóturinn er límdur við með teipi og það eru bitför á búknum. Álit sérfræðinga segir að það sé eftir kött… eða krakka, það fer eftir því hvern þú spyrð.
En þessi lyklakippa lá í mesta sakleysi sínu á bílastæðinu eftir Verslunarmannahelgina '79. Enginn úr sveitinni kannast við hana og veit ekki um neinn sem saknar hennar. Þannig að enn hengur hún á korkinum og bíður eiganda síns. Það er öðru hvoru skellt inn auglýsingu í einhverju dagblaði, en það svarar aldrei neinn. Reyndar hefur komið fyrir að hún er ekki einu sinni leyfð, fólk heldur að við séum að grínast!
LYKLAKIPPA með útbitnum, fótbrotnum Æðstastrumpi og þrem lyklum fannst á bílastæðinu hjá Kaupfélagi Skógarstrandar eftir Verslunarmannahelgina 1979. Eigandi er vinsamlegast beðinn að koma og ná í hana eða hafa samband við KSS í síma 499-9909. Hún hengur á korkinum. Opið í KSS frá 9-18 alla virka daga.
Starfsfólk KSS.
——-
Þetta er smá partur af sögu sem að ég ætla hugsanlega, mögulega að reyna að gefa út einn daginn. Ég veit reyndar ekkert hvort að þessi partur yrði með, en Kaupfélagið og Skógarsveitin eru partur af sögunni í það minnsta. Korkurinn er einfaldlega korkatafla með tilkynningum og ýmsu. Þetta á að vera kjánaleg saga. ^^