Rusl.


Hún vaknar og sér að fernurnar hafa færst til um nóttina. Það fer alltaf jafn mikið í taugarnar á henni. “Hvernig á ég að geta haldið öllu í röð og reglu þegar þið getið ekki verið kyrr þar sem ég vil hafa ykkur?”, spyr hún stæðuna sem þekur austurvegg svefnherbergisins. Hún bíður, en fær ekkert svar. “Já, skammist ykkar”, segir hún góðlátlega á meðan hún teygir úr sér. Það brakar vinarlega í eggjabökkunum undir henni. Þykkur og heitur angann svífur upp úr skuggunum og umlykur hana eins og rakt faðmlag. Hún drekkur inn þessa nýju lykt og finnur bragðið aftast á tungunni. Gömul og gleymd minning veltir sér hægt á hliðina djúpt djúpt inn í henni. Skyndimyndir blossa upp á yfirborðið; lítil stúlka, ljósir lokkar, geltandi hundur, gamall traktor, afi, amma, hrúga af dúkkum, hauslausar hænur flögrandi um, egg falin undir rúmmi, blóm í haga, sjálfdauð kind -uppþembd og ofaní skurði. Konan liggur í myrkrinu og starir upp í loftið. Tár lekur niður kinn hennar og myndar ljósa rák í annars grásprengdu landslagi. Hún veit ekki af hverju henni líður svona. Hún skilur ekki hvaðan það kemur. Það er orðið svo langt síðan, grafið og gleymt líkt og hún sjálf. Hún hristir sig , sest upp og virðir fyrir sér herbergið. Gamla tilfinningin að eitthvað vanti hellist yfir hana. Hún er orðin von þessari tilfinningu og verður ekki eins hrædd og áður fyrr. Lausnin er að mæla út hvað vantar og skipuleggja hvar megi komast yfir það. Í dag ákveður hún að það sé hráefni og líður strax betur. Hún stendur upp, færir stóran svartan ruslapoka fullan af Mix dósum til hliðar, svo hún komist fram á gang. Á ganginum er lítið autt pláss eftir, bara nokkrir þröngir fermetrar sem hún fikrar sig eftir í átt að baðherberginu. Það heyrist þrusk djúpt undir dagblaðahrúgunum, litlir fætur krafsandi um í hlýjunni. Inni á baði er mikill raki og mosavaxnir veggirnir gefa frá sér grænleita birtu, sem hefur alltaf haft róandi áhrif á konuna. Hérna situr hún oft þegar vöntunartilfinningin er hvað mest. Í baðkarinu geymir hún mjölkurvörurnar. Nýverið byrjaði hún að setja kaffivörurnar þar einnig. Við það hafa greinilega einhver efnasamhvörf orðið því að myndarleg svepparækt er farin að láta á sér kræla á yfirborði og niður á gólfið. Konan rýnir á spegilmynd sína í litla gulbrúna speglinum sem hangir yfir vaskinum. Það er dagamunur á því hvað hún sér stara á móti. Stundum er það litla ljóshærða stelpan, stundum skuggi af miðaldra konu sem þakin er í skít og drullu, stundum sér hún ekki neitt. Í dag er ekkert, einungis gangurinn bak við hana. Hún andvarpar og skilur ekki hvernig þetta getur verið svona. Fingur hennar þreifa á andlitinu, koma við klepróta hárið, færast niður lafandi brjóstin, yfir bólgna magann og niður að flækjum skautsins. Hún finnur að henni er mál og losar um vöðvana sem halda þvaginu inni. Heitur straumurinn flæðir niður leggi hennar og staldar stutt við á gólfinu áður en vökvinn dregst inn í vatnsbólgnu gólfjalirnar. Konan andvarpar af ánægju og fer fram á gang. Úr stórri fatahrúgu velur hún gammósíur, rúllukragabol og ullarkápu. Hún fer í fötin og klifrar yfir ruslapokana sem hún safnaði í gær í átt að útidyrahurðinni. Áður en hún opnar út setur konan upp rauða lopahúfu. Hún horfir inn í íbúðina og kallar: “Verð ekki lengi, kem aftur með hráefni handa okkur. Allir að vera stilltir á meðan.”. Það gustar inn í íbúðina og snjórinn sem safnast hefur við innganginn þyrlast upp og í kringum konuna. Hún lokar hurðinni, hallar sér upp í vindinn og leggur af stað, svartur blettur í tandurheinni snjókomunni.

KD – Reykjavík, Nóvember 2001