Loftið var kyrrt og fuglarnir sungu. Mikill grænn laufskógur lá yfir öllum dalnum sem var umkringdur háum fjöllum með aðeins tvær leiðir út í sitt hvorum endanum. Sólargeyslarnir mynduðu auðsæjar doppur á skógarbotninum. Skærgræn lauf hárra trjánna bærðust varla í logninu og á einu þeirra sat lítil lirfa og virti fyrir sér umheiminn óhrædd við lækinn beint fyrir neðan, sem þó hefur líklega orðið dánarorsök hennar.

Yfir lækinn hoppaði falleg stelpa. Hún var eitthvað innan við tvítug að aldri og var í víðri laufgrænni skikkju með boga spenntann yfir öxlina. Á fingri hennar var hringur með bókstafnum K slegnum með tvöfaldri gulllínu. Hún brosti í sólskininu sem blikkaði á andliti hennar þar sem hún hljóp eftir skógarstígnum. Á endanum komst hún á leiðarenda.

Þetta var lítið rjóður og í því miðju stóð stór steinn og glytti í mosa hér og þar á honum. Hún klifraði upp á steininn hugsi. Steinninn var rétt svo nægilega hár til að manneskja uppi á honum gæti horft yfir lauftoppana á lægri hlið rjóðursins og séð þannig yfir dalinn fyrir neðan. Eins og hana grunaði var dalurinn ekki jafn friðsamur og venjulega. Í rjóðri á bakka áarinnar sem rann í gegnum miðjann dalinn var eldstæði og um tugur manna í kring.
“Þetta mun ekki viðgangast” hugsaði hún. “Þetta er minn skógur.”



Ekki beint saga ég veit, bara sona að sýna ritstílinn minn… Þætti mjög vænt um komment á hann.
Gæti hugsað mér að gera svipaða sögu/framhald í almennilegri lengd ef enhverjum líst vel á þetta.