Hún situr berbrjósta á ströndinni og lætur skuggana sem varpast af klettunum leika við líkama sinn. Hún fylgist með svörtu hafinu og gráum himninum skipta hnífjafnt á milli sín sjóndeildarhringnum. Hún hendir hálfreyktri vafningssígarettunni út í sjó og fylgist með henni berjast við að halda sér fljótandi innan um bárurnar. Hún skrifar aftan á gamla greiðslukvittun ofurlitla og einlæga kveðju sem hún veit að mamma mun ekki skilja. “Ég er bara svo þreytt. Ég vil bara sofa.” Mamma mun hvortsemer aldrei sjá þessa gömlu greiðslukvittun sem öðlaðist nýjan tilgang.
Og nú skilur hún hver tilgangur alls lífsins er. Alveg eins og allt annað sem mannfólkinu dettur í hug er tilgangurinn að sitja á hnullungaströnd og reykja og hugsa.
Hún fer ekki einu sinni úr gallabuxunum þegar hún gengur í sjóinn. Hún bara sofnar og veit að hún mun aldrei losna við sjálfa sig. Sama þó líkami hennar verði blár, kalinn, líflaus, dauður. Þeir sem skilja munu sjá ofurlítið bros, eiginlega stríðnisglott á vörum hennar, þar sem hún finnst milli tveggja stórra steina í fjörunni.