Eftirfarandi frásögn er lauslega byggð á sannsögulegum atburðum

Ég rakst á Hannes Hólmstein í Nýja-Garði í gær. Það vakti reyndar athygli mína að hausinn á Friðbirni Orra var hvergi sjáanlegur en hann er jafnan fastur við rassinn á Hannesi. En hvað um það. Ég heilsaði Hannesi, akademískum starfsbróður mínum, og hann heilsaði mér og spurði mig frétta, og af hverju ég væri staddur í Nýja-Garði.
„Oh ég er bara að sækja nokkur verkefni” segi ég vinalega.
„Núnú, hvernig verkefni?”
„Æj bara í aðferðafræði, hvernig á að fara með heimildir og tilvitnanir og fleira í þeim dúr svo að sómi sé að. Þú hefur ekki íhugað að taka svona kúrs sjálfur við tækifæri?”
Hannes varð stjarfur af bræði og orðlaus. Síðan sló hann mig þéttingsföstum kinnhesti og öskraði svo: „Hvernig dirfistu!!!”
En ég sýndi engin viðbrögð og horfði áfram á hann með sakandi augnaráði, og Hannes vissi uppá sig sökina. Hann limpaðist niður í næsta stól og brast í grát.
„Svona svona Nesi minn!” sagði ég við Hannes og klappaði honum á öxlina. Rétti honum svo vasaklútinn minn og sagði honum að þerra tárin.
„En hefuru þér ekkert til málsbóta?” sagði ég meðan Hannes snýtti sér.
„Jú, ég lofa að gera þetta aldrei aftur!”
„Ha?”
„Ég lofa, að gera þetta aldrei aftur”
„Já þú verður þá að lofa því!” sagði ég höstugur.
Við það búið kláraði Hannes að þerra tárin og saug uppí nefið. Vonandi hafði hann lært sína lexíu. Við kvöddumst og Hannes hélt glaður útí kuldann. Svei mér þá ef hann valhoppaði ekki.
_ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _