Móðurást
Hún tók kökuna úr ofninum og setti hana út í gluggann til kælis. Hann yrði ánægður, hann sonur hennar, að hún skyldi hafa bakað handa honum köku. Hún lifði stundum fyrir bros hans. Hún var með rauða svuntu sem hann hafði búið til handa henni þegar hann var í handavinnu fyrir nokkrum árum. Æ hvað hann hafði nú verið lítill. Nú var hann orðinn sautján og kominn í menntaskóla með bílpróf og kærustu og allan pakkann. Hún settist og las blaðið á meðan kakan kólnaði en truflaðist þegar hún sá að saumurinn á svuntunni var að rakna upp. Guli saumurinn sem hann hafði notað til eða merkja henni svuntuna; Mamma. Hún varð pínu sorgmædd og ákvað að hún myndi laga sauminn við tækifæri. Hún sá son sinn allt of sjaldan þessa dagana, eftir skilnaðinn. Hann hafði viljað búa hjá pabba sínum. Þau höfðu svo selt húsið og foreldrarnir fluttir í sitt hvora íbúðina. En nú var hann á leiðinni og hann ætlaði að búa hjá henni í viku á meðan pabbi hans var í utanlandsferð fyrir vinnuna. Hann kæmi og fengi köku og svo myndi hann brosa til hennar sínu æðislega brosi. Kakan var orðinn nógu köld, nú gat hún hellt yfir hana kreminu. Hún var nýbyrjuð á því þegar dyrabjallan hringdi. Jæja, þá var hann kominn. Hún næstum valhoppaði að dyrunum og opnaði með bros á vör. En þetta var ekki hann. Þetta var maður í lögreglubúningi og prestur með honum. Þeir sögðu henni að sonur hennar hafði dáið í hræðilegu þriggja bíla árekstri á Miklubrautinni. Kærastan hafði verið með í bílnum og pabbi hans hafði verið látinn vita. Hún lokaði hurðinni þegar lögreglumaðurinn var búinn að segja það sem hann ætlaði að segja. Síðan gekk hún inn í eldhús aftur. Hún kláraði að setja kremið á kökuna og vaskaði upp og þreif eftir baksturinn. Svo hringdi síminn og hún hneig niður á gólfið og fór að gráta.