Ég hef horft niður til jarðarinnar þar sem ég sit á fallega grá-hvíta skýinu mínu og velti því fyrir mér hvort ég sé guð.
Ég hef aldei velt þessu áður fyrir mér: “Er ég guð?”
Ég leita að svari í djúpum fylgsnum hugans og þegar mér finnst ég vera að finna svarið þá rennur það í burtu líkt og blóm í straumhörðu fljóti.
Ég hugsa mig betur um og horfi á jörðina þar sem hún liggur langt fyrir neðan mig, ég hlýt að vera guð.
Já ég kemst að niður stöðu ég er guð, guð sem svífur um á skýinu sínu langt fyrir ofan jörðina, horfir niður á manneskjurnar og allt lífríkið og velt því fyrir mér hvort þau viti af mér þarna í skýjunum.
Ég heyri að minnsta kosti aldrei í þeim, þau virðast ekki kalla til mín í þakklæti fyrir allt sem ég hlít að hafa gert fyrir þau, eða kannski eru þau bara ekki að kalla nógu hátt.
Ég færir mig nær brúninni á grá-hvíta skýinu mínu til að sjá betur, ég sé hvar það mótar fyrir ám og vötnum, skógum og fjöllum og allri menguninni sem mennirnir hafa valdið.
Ég verð reiður, innra með mér finn ég reiðina brjótast um. Kannski ég geti gert eitthvað, ég gæti jafnvel sent flóð yfir þau, þá myndu mennirnir ekki hlægja, þá myndu mennirnir ekki halda áfram að eyðileggja jörðina sem ég gaf þeim… Eða ég hlýt að hafa gefið þeim hana, ég er nú einu sinni guð á grá-hvítu skýi.
Ég færi mig aðeins lengra út á brúnina á grá-hvíta skýinu mínu til að sjá betur, en svo sé ég hvernig jörðin nálgast á ógnarhraða, nálgast eða stækkar, það er hlutur sem heimspekingar gætu eitt mörgum árum í að deila um og pæla í, en svo mikinn tíma hef ég ekki.
Ég skell harkalega á framrúðu á grænum BMW og horfi undrandi í gegnum rúðuna á bílsstjórann sem starir á mig, og lítur svo til konunnar sinnar og segir: “Það lítur út fyrir að hann sé að fara að rigna.”
Og hann hafði varla sleppt orðinu er hann setti rúðu þurrkurnar á og þurrkaði mig í burtu ásamt hinum regndropunum.