Hann gengur þungbúinn inn á staðinn og sest einsamall við borðið. Lítur varla á matseðilinn, heldur pantar bara dýrasta réttinn sem er einhverskonar pólskur ufsi. Það skiptir ekki máli hvað það er, það er að minnsta kosti nógu dýrt.
Eftir að hafa skellt þessu í sig heldur hann heim á leið. Hann gengur ekki heim í þetta skiptið, hann gengur reyndar aldrei heim. Hann lætur bara eðalmótorvagninn sinn sjá um púlið.
Hann býr einn. Hann býr í nokkurskonar höll. Finnska gullskreytingin hans lokkar ókunnuga að en hann hefur engan áhuga á neinum öðrum en bankabókinni. Bankabókin situr í heiðursæti í huga hans, ofar en besti vinur hefði setið.
Þegar hann kemur heim setur hann einglyrnið á sig og byrjar að fletta í frumriti einhverrar bókar sem er víst mjög dýrmæt. Er bók ekki best vina?
Eftir lesturinn lætur hann renna í freyðibað og sækir gullofna sloppinn sinn. Sloppinn sem ofinn var af hreinum meyjum við tunglsljós á miðnætti í júlímánuði fyrir nokkrum árum. Svona getur bankabókin verið gjöful.
Þegar sólin rís svo daginn eftir bíður hans ekkert nema kaldur marmarinn.
Hann er dáinn. Dáinn í kúbverska rúminu sínu, undir kaldri sænginni.
Þegar hann er svo jarðaður, stuttu seinna, kemur enginn. Ekki einu sinni bankabókin.