Huggulegt, ekki satt…?
Ég heiti Jón (venjulegasta nafn heims, ég vil þakka mömmu fyrir allar stundirnar sem hún eyddi í að finna nafnið mitt) og ég er 28 ára. Ég vinn á bílaverkstæði. Ég er ljóshærður, með illa snyrt hár niður á axlir og illa rakaður. Ég er með bjórvömb og það er alltaf svitalykt af mér. Ég bý í litlu herbergi sem ég leigi í kjallara á Kleppsveginum. Þetta er ágætt, baðherbergi frammi á sameigninni og svona.
Ég hætti að læra eftir grunnskóla. Mér gekk samt alltaf vel. Var yfirleitt yfir áttunum á prófum og svona. Það kom bara að því að ég fattaði tilgangsleysi lífsins. Maður stritar og stritar í námi, fer í framhaldsskóla og svo í háskóla. Lærir kannski til 35 ára aldurs. En samt eru ennþá líkur á að maður verði nóboddí. Svo að ég ákvað bara strax í æsku að sleppa stritinu og verða bara nóboddí. Ég á aðra nóboddí vini á bílaverkstæðinu sem tóku sömu ákvörðun og ég í æsku. Ég sé ekkert eftir henni.
Ég vinn fyrir 180 þús. kall á mánuði. Kaupi mér kippu af Thule um helgar og nýt lífsins með félögunum. Stundum djammar maður, en stundum er bara leigð videospóla.
Það er svo frábært að lifa einföldu lífi. Alveg yndislegt. Ekki hefði ég nennt að eyða öllum árunum sem ég hef lifað í rólegheitunum, í lærdóm. Ekki séns.
Því ég hef margoft pælt í lífinu. Ímyndum okkur til dæmis mann í Þýskalandi. Sá maður heitir hvað…? Segjum bara Hans. Hans hefur verið í háskóla í 18 ár. Hann fór í læknanám í Þýskalandi og tók svo mastersgráðu í Harvard, nú er hann að vinna í doktorsgráðu. Samt veit ég ekki hver þessi maður er, og margir hafa enga hugmynd um hver hann er. Mér finnst enginn tilgangur með því að læra ógeðslega mikið nema til að allir viti hver maður er og virði mann.
Tökum sem dæmi Bill Gates. Hann er maður sem græddi á miklum lærdómi. En það eru ekki margir sem eru eins og hann.
Svo aukast líkurnar á að maður verði nóboddí náttúrulega ósjálfrátt um 200% þegar maður býr á Íslandi. Meina, kommon. Einu heimsfrægu Íslendingarnir eru Björk og Eiður Smári. Svo, til hvers að læra og verða nóboddí eða bara vera nóboddí? Ég valdi það seinna og sé ekki neitt eftir því.
Sumir segja; Hvað ef maður vill vera ríkur og búa í stóru húsi? Ég segi bara fokk það, það er ekki vinnunnar virði. Eg leigi mér kannski eitthvað stærra en þetta herbergi, en ég ætla ekki að fara að vinna og læra alla ævi fyrir 250 fermetra húsi. Ég labba ekki það mikið heima hjá mér. Er meira bara í tölvunni og að horfa á sjónvarpið.
Jæja..ég er farinn, bjórkvöldið bíður.
Ef þú átt eitthvað vantalað við mig….slepptu því að segja það.