„Syngjandi sæll og glaður, til síldveiða nú ég held..“, oh hvað Ragnar hataði þessar veiðiferðir. Af hverju þurfti fjölskyldan hans endilega að taka hann með, það eina sem vakti áhuga hans þarna var að henda systur hans út í vatnið. Jafnvel þó svo að þau færu að veiða þá þurftu þau ekki endilega að gista þarna. Einhverra hluta vegna var Ragnar ekki alveg jafn svartsýnn og neikvæður núna og venjulega, hann hafði það á tilfinningunni að eitthvað óvenjulegt ætti eftir að gerast.
Eftir nokkurra klukkutíma keyrslu komu á áfangastað. Þarna stóð vatnið kyrrt og leiðinlegt, það gerðist aldrei neitt skemmtilegt á þessum stað. Nema þegar Ragnar var 13 ára, þá datt systir hans ofan í brunn og sat þar föst í tvær heilar klukkustundir, en það var fyrir 3 árum síðan, systir hans passaði sig á því að gera engin glappaskot núna.
Dagurinn leið eins og venjulega, þau veiddu mestallan daginn milli þess sem þú fengu sér heitt kakó og spiluðu „Yatsí“. Ekkert óvenjulegt hafði gerst, Ragnar virtist vera að missa vitið af leiðindum, annað hvort var það svo eða þá að systir hans var komin með yfirskilvitlega hæfileika. Þó grunaði Ragnar nú að það væri seinni kosturinn.
Morguninn eftir vaknaði Ragnar með höfuðverk, en það skrýtna var að hann var hangandi á hvolfi í uppi í tré. Ragnar kippti sér þó ekkert upp við þetta, hann klifraði niður úr trénu og byrjaði að steikja sér egg. Ragnar áttaði sig hinsvegar á að hann var ekkert svangur. Honum leið eins og hann hafi étið krókódíl með gervitönn. Allt í einu varð Ragnari litið á hendurnar á sér, þær voru kafloðnar og neglurnar orðnar að klóm. Ragnar fann einnig fyrir því að tennurnar í honum voru orðnar undarlega stórar, hann þreifaði á þeim og fann þá að augntennur hans voru orðnar að vígtönnum. Skelkaður hljóp hann í átt að tjaldi foreldra sinna.
En þegar hann kom að tjaldinu sá hann að það var allt rifið og tætt líkt og villidýr hefði gert þar atlögu. Hann gekk að tjaldsopinu og leit inn. Sjónin sem blasti við honum kom honum til að gráta. Stuttu síðar byrjaði hann einnig að kúgast. Fjölskylda hans lá þarna, eða það sem eftir var af þeim. Skyndilega rann upp fyrir honum að það hafði verið fullt tungl kvöldið áður. „Ekki er ég orðinn…nei það getur ekki verið“, hugsaði hann.
Ragnar vaknaði við hlátrasköll. Hann reis upp og sá þá fjölskyldu sína í hrókasamræðum. Hann hann hafði sofnað við dottað við kvöldverðarborðið. Hann fann skrýtna tilfinningu, mikinn sársauka. Eins og einhver væri að rífa af honum hendurnar, hann leit á þær og sá þær stækka og breytast í risastórar klær. Hann fann fyrir miklum sársauka í höfðinu, fötin hans byrjuðu að rifna og hann fann fyrir miklu hungri, miklu hungri í kjöt og blóð. Hann fann hvernig hann byrjaði að missa stjórn á sér. Líkami hans byrjaði að hreyfast í átt að fjölskyldu hans. „NEI!!!“, öskraði Ragnar en hann hafði enga stjórn á líkama sínum, líkt og einhver annar stjórnaði honum. Loks fann hann aðeins fyrir hungri og blóðþorsta, hann var heltekinn af dýrslegu eðli. Hann var orðinn varúlfur.