Þetta er örsaga eða smásaga -eða jafnvel efni í eitthvað meira? Kom bara svona hjá mér í einu kasti og átti upphaflega að vera efni í samkeppnina sem er í gangi á rithringnum þar sem þemað er “hryllingur” en hún varð ekki nógu löng hjá mér áður en skilafresturinn rann út. Svo hef ég ekkert hreyft við þessu í bili, leyfði henni að vera eins og hún kom fyrst, endilega segið mér ykkar álit, hvaða áhrif hún hefur og um hvað ykkur finnst hún vera. NB! Ennþá á vinnslustigi svo endilega kommentið!!
Andadrátturinn þyngist. Lyktin af þér læðir sér inn um vit mín. Það er eins og ég andi að mér glerbrotum, sársaukinn rífur mig að innan -hægt.
Finn hvernig lungun herpast á móti önduninni, taka svo djúpan kipp er þau gefa eftir og fyllast. Sársaukinn nístir líkt og hnífsstunga.
Skelfingin heldur mér í járngreypum.
Hver einasta taug í líkama mínum er þanin til hins ýtrasta -viðbúin öllu því versta.
Hver snerting frá þér brennir sig í húðina á mér -ég er merkt að eilífu með fangamarki þínu. Sál mín svíður undan járninu.
Hálsinn er sár en ég reyni að öskra, -hás og kúgast af blóðbragðinu. Höggin frá þér dynja á mér -í huganum.
Finn hvernig þú yfirbugar mig, færð þínu framgengt -einu sinni enn.
Í örvæntingu leita að flóttaleið, -en hún er engin.
Lömuð í sal minninga -veruleika hugans.
Fórnarlamb árásar. Fangi óttans.
Upplifi hryllinginn aftur og aftur. (og aftur og aftur).