—-
Ég fór út í búð áðan, skipti skítugum íþróttabuxunum og bolnum út fyrir ögn hreinni gráa rúllukragapeysu og dekkri buxur, lagaði til hárið og setti varasalva á þurrkaðar varirnar. Svo stökk ég út ofurhress og gekk niður eftir, skilaði spólu, keypti gos og brosti að afgreiðslustúlkunni eins og hver annar rólegur down to earth strákur sem myndi glaður vilja ríða henni eftir þrjú stefnumót, kaupa lítinn bangsa til að vera sætur, vera kurteis við tengdaforeldrana þó þú þolir þá ekki. Fara með hana á fínt veitingahús sem sýgur burt allt vikukaupið, stofna með henni heimili í lítilli kjallaholu sem leigusalahelvítið rukkar of mikið fyrir, skjóta út með henni tveimur og hálfu barni. (samkvæmt gömlum tölum fyrir hina dæmigerðu vísitölufjölskyldu) Eignast kött sem fer úr hárum í nýja en gallaða IKEA sófann, og koma heim þreyttur eftir tilgangs og endalausan vinnudag til þess eins að finna þykka fýlu af notuðum kúkableyjum, hálfbrenndum pottrétt og sígarettureyk.
Brosið var úr mínu besta sparisafni. Allir þurfa svona bros, og auðvitað fáein andlit til að passa við. Eitt ábyrgt og ætíð glatt fyrir yfirmanninn, eitt umhyggjusamt og skilningsríkt fyrir vinina, eitt kasjúal og vinalegt fyrir nágrannann. Þú lærir þetta í sálfræði í framhaldsskóla. Fólk sýnir mismunandi andlit mismunandi fólki í lífi þínu. Andlitin eru regnhlífar sem hlífa manni fyrir heiminum í kringum sig, endalausum spyrjandi augunum sem reyna við hvert tækifæri að bora sig í gegnum varnirnar og róta í öllum leyndardómunum eins og hundar að klóra sig inn í tófugreni. Á regnhlífinni stendur svo “venjulegur”.
Venjulegt fólk er blekking, enda er það fólk sem kastar öllum grímunum og er bara það sem það er talið skrítið, furðulegt, geðveikt eða barnalegt. Pældu í því ef allir köstuðu andlitunum sínum í ruslið eins og notuðum umbúðum utan af súkkulaði.
Lítilláta kennslukonan sem gerist latexklædd dómína á kvöldin og hýðir menn og bindur gegn gjaldi.
Rólegur kerfisfræðingurinn haldinn geðklofa sem kemst í gegnum daginn með aðstoð lyfja og tilneyddrar ást foreldra sem skammast sín fyrir geðveika soninn.
Miðaldra strætóbílstjórinn sem kemur hálfur út úr skápnum eftir 20 ára hjónaband með þrjú börn og tælir unga menn í kjallaraíbúðina sína. Þrítugur jeppakallinn sem klæðist kvenmannsfötum og pinnahælum heima hjá sér og kallar sig Söndru. Ráðríki framkvæmdastjórinn sem fer í sokkabuxur, geltir eins og hvolpur og lætur lítillátu kennslukonuna rasskella sig með spaða á meðan eiginkonan situr heima og heldur að hann sé á síðbúnum kvöldfundi. .
Bara pældu, heimurinn yrði eins og litríkur, hneykslanlegur og grátandi sirkus í smá tíma, en svo breyttist sýningin með tímanum í hversdaginn og allir héldu áfram sínu lífi með allar klyfjar af bakinu, engin leyndarmál, engar grímur. Engar óspurðar spurningar.
Svona útópíur hafa venjulega eitt nafn, draumórar. Svona eins og kommúnismi, fullkomin kvenréttindi og eiturlyfjalaust Ísland árið 2000.
—–