Undanfarna daga hef ég fundið til þarfar til þess að skrifa eitthvað. Hérna er afraksturinn. Ég vil taka það fram að þetta er aðeins byrjun á hugsanlega stærrra ritverki. Ég vona að ykkur líki þetta og endilega segið mér hvað ykkur finnst.




Hárið fauk með vindinum, það var dökkt eins og alsvört perla sem hefur legið á hafsbotni í hundruðir ára. Liturinn á því var meira áberandi en venjulega þar sem svitinn speglaði sólarljósið á enni mannsins. Þessi maður heitir Tómas Albertsson, hann er frekar þybbinn og með veika andlitsdrætti. Hann virðist á hverjum tíma alltaf vera með að minnsta kosti einn kæk og í þetta skiptið var hann svo áberandi að vinir og kunningjar hans hálfskömmuðust sín er þeir gengu með honum úti á götu. Kækurinn var þannig að í hvert skipti sem Tómas sá einhvern í bláu klæði, hvort sem er peysu eða buxum, húfu eða hönskum að þá virtust augun hreinlega stækka um tylftir millimetra, ekki get ég útskýrt þetta frekar. En þrátt fyrir allt þetta kemur hann í augum ókunnugra út sem heillandi maður því sjálfstraust og hamingja hreinlega geisla af honum.
Í dag leit hann þó ekki svona út. Í dag var hann klæddur í óhrein föt með háirð allt úfið og ofan á þetta kófsveittur. Hann leit út eins og maður sem hefur drukkið allt of mikið um nóttina og hreinlega gleymt því hvar heimili hans er. Reyndar er þessi líking ekki svo fjarri lagi. Nóttin áður var reyndar alger ráðgáta í augum hans. Hann mundi aðeins einstaka atburði og gat engan veginn sett þá í samhengi. Hann mundi eftir því að hafa einhvern veginn lent í hóruhúsi sem hann gat reyndar ekki staðsett því hann vissi ekki um neitt hóruhús í Reykjavík og hann mundi eftir einhverjum manni sem leit út í minningunni eins og besti vinur hans. Hann kveikti samt alls ekki á manninum sama hvað hann reyndi. Þrátt fyrir allt þetta sem hefði gert hinn fallegasta mann ljótan var það sem mest var fráhrindandi við hann svipurinn sem virtist einskonar blanda af manni sem hefur fundið til gríðarlegs viðbjóðs og manni sem finnur til mikilla þjáninga. Fólk horfði á hann og móðgaðist við það eitt að sjá þennan óútskýranlega svip. En svipurinn hafði eins og flest annað ástæðu. Einhverja hluta vegna leið honum eins og að hann hefði gert eitthvað sem væri þúsund sinnum verra en nokkuð sem fellur undir flokkinn lágkúra.
Hann gekk niður stóra götu merkta sem Aðalstræti og var djúpt hugsi. Hann var ekki að fara neitt sérstakt, hann var aðeins að reyna að ráða eitthvað í púsluspil gærdagsins.
Í miðjum þesum hugleiðingum kom stór og digur maður hinum meginn götunnar auga á hann.
- Haha Tómas þú gamli óþokki.
Mælti maðurinn hátt og skýrt í glaðlegum tón. Tómas kannaðist ekki við hann en honum leið hálf illa í kringum hann, rétt eins og hann hefði gert eitthvað á hlut. Maðurinn var klæddur samkvæmt nýjustu tísku og með stóran vindling í hægra munnvikinu, semsagt mjög spjátrungslegur.
-Tómas minn hvenær ætlarðu að veita mér þetta viðtal sem þú lofaðir mér ha?
-Viðtal?
Tómas fattaði hver þetta var, þetta var Hr. Friðriksson (það vildi hann allavega að fólk kallaði hann) blaðamaður hjá bæjarblaðinu.
- Já viðtalið sem þú lofaðir mér um nýjustu rannsóknir þínar
- Já það, ég er reyndar alveg tilbúinn í það, komdu til mín á rannsóknarstofuna klukkan svona þrjú á morgun, ég er laus þá, kemst þú ekki?
- Ha? Klukkan þrjú, jú það er reyndar ágætt ég sé þig bara þar.
Hr. Friðriksson hraðaði sér í burtu eins og hann vildi losna við Tómas eins fljótt og hægt var. Tómasi fannst eins og hvorugur þeirra væri verðugur hins. Honum fannst Hr. Friðriksson ekki þess verðugur að tala við eins frægan vísindamann og Tómas jú var og honum fannst hann sjálfur einhverra hluta vegna ekki verðugur þess að tala við einhvern jafn kurteisan og siðprúðan. Þessa tilfinningu skildi hann ekki, honum hafði aldrei liðið svona áður. Honum hafði alltaf fundist hann sjálfur vera maður en núna leið honum eins og mús.
Hann vissi að hann hafði gert eitthvað hræðilegt.

Einhver var að elta hann, hann var viss um það. Kannski var það granni maðurinn með tilgerðarlega brosið og bláa hattinn og kannski var það konan sem gekk rétt fyrir aftan hann eins og hún ætti heiminn. Tómas hraðaði sér niður götuna og beygði til vinstri. Hann var kominn í þann hluta Reykjavíkur sem hann þekkti hvað minnst. Gamli vesturbærinn var í hans augum ráðgáta. Honum fannst húsin þarna allt annað en falleg þótt að hans eigið hús sem hann bar miklar tilfinningar til væri mjög svipað nokkrum húsum þarna. Tómas gekk eftir Vestugötunni og enn fannst honum eins og einhver væri að elta sig. Honum leið mjög illa, honum fannst eins og það væri ekkert lágkúrulegra en þetta: Virtur vísindamaður sem er sannfærður um að einhver sé að elta sig er að hegða sér eins og algjör api.
- Hættu að elta mig helvítis fíflið þitt! Geturðu ekki látið heiðvirðan mann eins og mig í friði. Farðu í burtu, farðu!
Þetta öskraði Tómas yfir nokkra fínar og virðulegar konur sem virtust vera að koma af fínni árshátíð eða einhverju slíku. Þær strunsuðu í burtu hneykslaðar og skildu þar með Tómas sem hundskammaðist sín fyrir þetta uppátæki einan eftir.
Tómas flýtti sér heim til sín skellti hurðinni í lás og lagðist upp í rúmið sitt. Hann sofnaði undir eins ennþá í skítugu fötunum.

***

Lítill strákur sirka tíu ára gamall virðist vera mjög hræddur. Allt er dimmt og þykk þokuslæða liggur yfir öllu nálægu umhverfi. Hann skimar að því er virðist í örvæntingu til allra hliða. Einhver fjarlæg, dularfull öskur ólík flestum þeim sem fólk heyrir í sínu lífi óma um allt. Strákurinn byrjar að hlaupa, hann er öskrandi líka. Hann baðar út báðum höndum sínum og virðist alveg vera að missa það. Eins og þruma sem birtist í heiðskýru lofti koma allt í einu refir, tylftir refa sem virðast vera alveg óðir. Þeir ráðast á drenginn og á örskömmum tíma er hann alblóðugur. Refarnir rífa í hann hver á fætur öðrum og öll von er úti fyrir drenginn. Allt verður hvítt, bæði drengurinn og refirnir hverfa og allt sem sést er hvítt.

Tómas vaknaði með andköfum. Þennan draum hafði hann dreymt reglulega við erfiðar aðstæður í tugi ára, allt frá því að hann lenti í þessu sjálfur 11 ára gamall. Í það skipti var honum bjargað af föður sínum og bóndum sem bjuggu nálægt honum. Í draumunum hinsvegar var honum aldrei bjargað. Þessir draumar voru alltaf boðberi einhvers ills. Í þetta skiptið fannst Tómasi eins og eitthvað væri öðruvísi, hvað það var hafði hann hinsvegar enga hugmynd um.
Hann hafði sofið í heilar sextán klukkustundir. Hann hafði sofnað klukkan fimm síðdegis en var nú vaknaður klukkan um það bil níu. Hann fór úr skítugu fötunum og fór beint í sturtu. Hann ákvað að klæðast sínum fínustu hversdagslegu fötum. Þetta átti að vera einskonar persónuleg sárabót fyrir atburði dagsins áður. Tómas rakaði sig og greiddi hárið vel og lengi. Hann klæddi sig í fínu jakkafötin sín sem hann fór venjulega í á vísindaráðstefnur og fannst hann líta mjög vel út.
Enn var hann þó ekki alveg kominn yfir drauminn því síðast sem hann dreymdi þetta hafði það verið (hélt hann) fyrirboði á dauða bróður hans sem hafði dáið af slysförum aðeins 34 ára gamall.
Tómas ákvað að ganga til rannsóknarstofunnar þar sem hann vann. Hann reiknaði það út að fríska loftið hlyti að gera honum gott. Rannsóknarstofan var ekki stutt í burtu en heldur ekki mjög langt í burtu. Það tók hann einhverjar fimmtán mínútur að labba til hennar. Fáir vissu nokkuð um þessa rannsóknarstofu þar sem að aðeins mjög fáir unnu þar og þeir sem það gerðu töluðu eins lítið og þeir gátu um hana. Þarna höfðu einhverjar mestu uppgötvanir Íslandssögunnar átt sér stað en aðeins brot af þjóðinni hafði nokkra hugmynd um það. Hann og samstarfsfélagar hans voru mjög virtir erlendis en í heimalandi þeirra könnuðust fáir við þá. Þeim líkaði það að fá að vera í friði frá snobbuðum blaðamönnum. Tómas hafði þó gert þá reginvillu að lofa einhverjum blaðamanni sem kynnti sig sem Hr. Friðriksson viðtali og hafði meira að segja í óráðinu daginn áður sagt honum að koma við hjá sér í dag. Blaðamaðurinn hafðí einhvern veginn komist á snoðir um rannsóknarstofuna og þær rannsóknir sem þar höfðu átt sér stað. Nú vildi hann segja íslensku þjóðinni frá þeim og þar með veita Íslendingum enn eitt tilefni til þess að monta sig af við útlendinga.
- Nei ég má ekki veita honum þetta viðtal það mun eyðileggja allan friðinn og reyndar má hann ekki segja neinum neitt, við verðum að sjá til þess. Hvað var ég eiginlega að hugsa.
Þetta sagði Tómas upphátt í viðurvist margra votta og því varð hann mjög bitur út í sjálfan sig. „Í annað sinn á tveimur dögum geri ég mig að algjöru fífli fyrir framan einhverja vitleysingja” hugsaði hann með sér. Hann hraðaði sér til rannsóknarstofunnar og kom þar inn i mikilli fýlu.