Í einni af þessum göngum mínum um borgina þá sá ég tvo sérkennilega karla vera að læðupokast fyrir framan gamalt hús í miðbænum. Mér sýndist annar karlinn vera um fimmtugt en hinn var heldur yngri að sjá.
Þetta hús var nú ekkert sérstakt heldur bara svona venjulegt timburhús, blátt með rauðu þaki. Neglt var fyrir nokkra glugga og augsýnilega var húsið í mikilli niðurníðslu. Það vakti því furðu mína hvað þessir tveir, voru að gera þarna. Ekki var líklegt að þeir byggju þar. Hvað voru þeir að aðhafast? Ég fylgdist með þeim um stund. Sá ég þá hvað þeir reyndu að komast inn um lítinn glugga í kjallaranum. Ekki báru þeir sig fagmannlega að, annar reyndi að spenna upp gluggann meðan hinn reyndi að opna hurð sem þarna var líka. Þá fóru einkennilegir hlutir að gerast. Allt í einu var sem öll ljós kviknuðu í húsinu en slöknuðu jafn fljótt aftur. Í fyrstu virtist þeim bregða, en eftir smá stund jöfnuðu þeir sig og hófust handa á ný.
Þegar þeir höfðu brasað við hurðina í smá tíma fóru að heyrast undarleg hljóð að innan. Fyrst var eins og að hurð væri skellt, á eftir fylgdi hávært ískur. Nú varð köllunum ekki um sel. Þeir litu hvor á annan og þorðu sig ekki að hreyfa. Þannig stóðu þeir drykklanga stund. Allt í einu fengu þeir heljarinnar vatnsgusu yfir sig. Litu þeir upp og sáu hvar gluggi hafði verið opnaður. Á meðan á þessu stóð trítlaði köttur fram úr bakgarðinum. Gekk hann í rólegheitum til þeirra karla og setti á sig kryppu, hvæsti hátt og læsti klóm sínum í fætur yngri karlsins. Hann öskraði af sársauka og hræðslu. Hinn reyndi að reka köttinn í burtu en varð lítið ágengt. Í þann mund sem þeir reyndu að losna undan kettinum, kom gömul kona haltrandi í átt til þeirra. Hún reiddi staf sinn til höggs og spyr þá höstum rómi hvað þeir vilji. Fátt var um svör hjá aumingja körlunum. Nema hvað þeir báðu kerlinguna um að losa sig við köttinn. Ekki reyndist henni það erfitt, þar sem kötturinn hlýddi henni strax. Aumir og skömmustulegir muldruðu karlarnir afsökunarbeiðni. Kváðust hafa ætlað að skoða sig um í húsinu þar sem þeir héldu að enginn byggi þar. Konan sagði þá aumu kjánana, svona fullorðna mennina, að láta sér detta slíkt í hug. Með hausinn ofan í bringu héldu karlarnir burt. Gamla konan settist á tröppurnar og kötturinn við hlið hennar. Ég hélt göngu minni áfram og velti því fyrir mér fleira skemmtilegt yrði á vegi mínum.
The Lord Fusion Lorus