Sæl verið þið öll.
skrifuð í desember 2002.
Jólasaga 2002
Ég stend við eldhúsbekkinn. Við mér blasir hafið í allri sinni dýrð, Akrafjallið er hálf hulið þoku svolítið eins og dulúðlegri þoku. Ég hef loksins aflað mér allra hráefnanna sem ég þarf til að geta bakað hina einu sönnu jólaköku.
Andi jólanna er einhvernvegin smá saman að færast yfir kotið mitt og alla náttúruna sem umvefur allt mitt umhverfi, sem þíðir að ég er orðin allt of sein með þessa köku. Það breytir því þó ekki að ég læt það eftir mér vegna hughrifanna.
Rúsínurnar renna ljúflega milli fingra minna kirsuberin, kokteilberin, jarðaberin, hneturnar, möndlurnar jafnvel kúrenurnar gæla við hvern minn fingur. Skyndilega er ég hrifin burt og við mér blasir allt annar dalur. Klausturveggirnir rísa við sjóndeildarhringinn í öllu sínu veldi þykkir, gráir, stórkostlegir. Húsið er ævagamalt, en iðar af lífi.
Nunnurnar eru að undirbúa sín jól. Ung stúlka fylgist með af miklum áhuga, hún er jafnvel dálítið hissa, það hafði aldrei hvarflað að henni að nunnurnar stæðu í bakstri. Hún hafði séð þær fyrir sér með biblíuna í hendinni, alvörugefnar við bænahald og tilbeiðslu, þær voru jú giftar Kristi.
Hún reikar út í klausturgarðinn. Hugur hennar leitar til mannsins sem hún elskar, hann er enginn kristur, ekki svo að skilja að hann sé ekki góður, en hann er af holdi og blóði. Hann er mannlegur ástríðufullur. Það fer léttur hrollur um hana og augun blika. Hvernig sem hún reynir fær hún ekki skilið hvernig þessar elskulegu konur geta hugsað sér þetta líf án ástríðu, já án atlota.
Hér hafði henni opnast annar heimur sem olli henni hugarbrotum, það var þess virði. Hún hafði lært tungumálið sem nunnurnar töluðu, það var jú tilgangurinn með dvöl hennar í þessu fagra umhverfi sem umvafði klaustrið. Einnig hafði henni hlotnast að skyggnast inn í þennann undarlega dularfulla heim klausturlífsins.
Hægt og rólega færðist kvöldroðinn yfir dalinn. Fjallasýnin blasir við henni ægifögur, andi jólanna er í nánd. Hún finnur það allstaðar, hún sér það á birtunni, hún skynjar það innra með sér. Hún er ástfangin af lífinu og tilbúin að leggja það að fótum sér. Flögra á vit hins óvænta njóta, spennunnar sem fylgir því að njóta ásta.
Unga dökkhærða konan brosir fjarlægu fögru brosi.
Gleðileg jól yndislega veröld..