Augnbrúnir mínar speglast óljóst og gegnsætt í glerinu. Ég hef alltaf verið stoltur af augnabrúnunum mínum. Ég er með virkilega fallegar augnabrýr. Veðrið úti er stillt og fallegt en ískalt. Það er gott að vera réttum megin við glerið. Samt dauðleiðist mér, þetta er búin að vera rólegur dagur, og ekki fyrir ösinni að fara þrátt fyrir að líða sé farið að jólum. Ekkert frekar en venjulega.
Þrjár óléttar konur koma inn.
Mér bregður dálítið í brún, þar sem ófrískir kvenmenn eru kannski ekki beinlínis sá markhópur sem fyrirtækið hefur stílað á hingað til. Þetta eru skrýtnar verðandi mæður: Ein þeirra, sú rauðhærða, er með eyrnalokka, meðan hinar tvær eru ekki með neina.
‘Get ég aðstoðað ykkur’ spyr ég þær með vingjarnlegri, þrautþjálfaðri atvinnumannaröddu. Ég ætla að verða leikari.
Einhverra hluta vegna þá bera þær allar barmerki, svo það fari ekkert á milli mála hver þær séu.
ÉG ER ÓLÉTT KONA stóð á því, og svo nafn, afar líklega þeirra eigið.
Samkvæmt því heitir ein þeirra Sigríður, afar hávaxin manneskja og önnur Sigrún, jafnframt fremur hávaxin, þó ekki eins hávaxin og Sigríður. Sú þriðja, þessi rauðhærða með eyrnalokkanna, heitir Gulla.
Mér finnst það svolítið skemmtileg tilhugsun að allar þessar þrjár stelpur hafi pottþétt verið að ríða typpi einhvern tíman undanfarna níu mánuði. Ég er þó ekki nógu vel að mér í kvennafræðum til að geta sagt um hversu langt þær voru komnar á leið en ég tel mig vita þó það mikið að það hefur varla verið meira en níu mánuðir síðan.
‘Er Doddi énna?’spyr Sigríður með rámri og ruddalegri röddu.
‘Doddi?’ hvái ég. Ég kannast ekki við neinn helvítis Dodda. Ef það ynni einhver Doddi hérna þá myndi ég kannast við hann en það geri ég ekki.
‘Það vinnur engin Doddi hérna’ bæti ég við með traustvekjandi en staðfastri röddu, þótt ég hefði eflaust geta farið minna klunnalega að þessu. Og það vantaði ekki viðbrögðin.
Bæði Sigrún og Sigríður opna munninn á sama tíma og ég drukkna án þess að ná haldi á einu einasta orði. Hávaðinn í þessum kellingum. Greinilegt að hormónastarfsemin getur alvarlega brenglað fólk. Ég verð að viðurkenna að kjaftavaðallinn kom eins og blaut tuska í andlitið á mér, kom mér af laginu. Þrátt fyrir að greina ekki orðaskil þá skildist mér samt sem áður af látbragðinu og svipbrigðunum að þær væru afar hneykslaðar, ef ekki móðgaðar. Og reiðar í þokkabót. Þessu bjóst ég ekki við, það verð ég að viðurkenna.
Gulla steinþegir. En hún tekur samt þátt í þessum gjörningi á sinn hátt. Samankipraðar varirnar eru eins og beint strik. Og hún kveikir sér í sígarettu með augnaráðinu.
‘Afsakið…’segi ég hjáróma til þess að vekja á mér athygli án nokkurs árangurs, ‘afsakið,’endurtek ég mig.
‘AFSAKIÐ!’ öskra ég og lem í borðið, ‘það er bannað að reykja hérna inni.’
Dauðaþögn. Manndrápsþögn.
Ég heyri í gegnum milliþilið óminn af því þegar piparsveinninn á efri hæðinni byrjar að spila á píanóið. Hann er virkilega flinkur í að spila Tjobin.
Ég sé yfir öxlina á Sigrúnu, út um gluggann, að það er farið að snjóa. Afar fallegri snjókomu, sannkallaðir hundslappadrífu.
Smá saman hverfa ófrísku konurnar, dofna og hverfa. Eftir að ég verð sem dáleiddur af jólasnjónum hef ég væntalega hætt að vera skemmtilegt skotmark fyrir skapsveiflunum í þeim. Þær hafa væntalega yfirgefið sjoppuna til þess að finna vænlegra fórnalamb sem þær gætu rasað út á. Ég er sem í öðrum heimi.
Þó nokkru síðar er ég að lesa Morgunblaðið á Prikinu þegar fáeinir lykilmenn í Ásatrúarsöfnuðinum, svokallaðir vinir mínir, setjast í kringum mig og byrja að spjalla. Ég er reyndar vanur að koma á Prikið því að ég hef vitað hingað til að þangað færu aldrei lykilmenn í Ásatrúarsöfnuðinum að staðaldri, svo lengi sem þeim er einhvers annt um æru sína. En af spjalli þeirra mátti ráða að einhverskonar hallarbylting hafi verið gerð meðal forvígismanna félagsins, þeim hafi fundist þeir vera orðnir það miklir lykilmenn að þáverandi alsherjargoði hafi farið að vera óþægilega mikið fyrir þeim. Svo þeir komu honum úr embætti. En það er náttúrulega ekki að sökum að spyrja að fyrrverandi alsherjagoði, alræmd drykkjukempa, þjóðþekkt fyrir skörungslega framkomu sína í Guðmundar og Geirfinnsmálinu, lét ekki vaða yfir sig og hefndi sig með því að stela bestu borðunum þeirra á Kaffi París. Svo allavegana þangað til að um færi að lægja hugðust þessir lykilmenn í ásatrúarsöfnuðinum, kunningjar mínir, halda mér félagskap í útlegð sinni á Prikinu.
Það er alveg á hreinu að ég þyrfti að fara finna mér annan stað til þess að kaupa kaffið mitt, eða einfaldlega kaupa mér kaffivél og gerast áskrifandi að morgunblaðinu.
Spjallað er um heima og geima en þessar samræður fara samt að mestu innum eitt eyrað og út um hitt þar sem ég renni augunum yfir innsendar greinar Moggans. Það er ekki fyrr en ég fæ á tilfinninguna að Hegranesgoði væri að segja eitthvað merkileg þegar ég fer að sýna minnsta áhuga á umræðunni og bið hann um að endurtaka það sem hann sagði.
Það er ekki laust við að það færi hrollur um mig. Samkvæmt Hegranesgoða voru þrír vestfirskir fjöldamorðingjar komnir á stjá á ný. Óléttu kvenmorðingjarnir Sigríður, Sigrún og Gulla hafi sést á ferli aftur á þessum slóðum eftir að hafa skelft íbúa austurlands síðastliðin fimm ár með víðfrægum blóðböðum sínum og mannáti.
Já, svona getur lífið verið skrýtið og oft hangið á bláþræði án þess að maður átti sig á því.
Alveg stórmerkilegt.