Ég hefi heyrt getið um ýmsar hæðir og hóla hér í sveitinni þar sem menn segja að “óhreint” sé í, og ætlaði líka að bera til muna á því með bæjarhólinn á Finnbogastöðum hér um bil fyrir fjörutíu árum síðan (hólinn sem bærinn stendur á), og er sú saga þannig:
Bóndi hét Halldór og bjó fyrrum á Finnbogastöðum, en flutti sig þaðan búferlum að Reykjarfirði hér í sveit.
Meðan hann bjó á Finnbogastöðum þá drap hann einhverju sinni í bræði sinni smaladreng sem hjá hönum var og dysjaði hann í bæjarhólnum, og fóru litlar sögur um það hvernig drengurinn hefði dáið, með því ekki mun hafa verið ríkt gengið eftir slíkum smámunum í þá daga.
Mikið mörgum árum síðar þá er Magnús hreppstjóri Guðmundsson sem dó nú fyrir fjórum árum bjó á Finnbogastöðum bar svo við að hann byggði smiðjukofa rétt hjá bænum og stakk nokkra hnausa upp úr þessum hól sem strákurinn var dysjaður í. Varð þá móður hans sem var hjá hönum gömul og örvasa mjög bilt við þegar hún heyrði þessar tiltektir sonar síns, og sagði að eitthvað illt mundi af þessu fljóta því að hvergi hefði hann getað stungið hnaus í verri stað.
Nóttina næstu á eftir kom líka draugur til Magnúsar þar sem hann lá í rúmi sínu, og tók svo fast á fótum hans að hönum varð meint við og var hálflasinn daginn eftir.
Nóttina næstu þar eftir kom draugurinn aftur til Magnúsar og var þá enn magnaðri; tók hann þá á lærum hans og víðar á hönum svo Magnús lagðist veikur eftir.
Næstu nóttina eftir þetta kom draugurinn enn til Magnúsar, tók fyrir hálsinn á hönum og var nærri búinn að kyrkja hann þar sem hann lá í rúmi sínu fyrir ofan konu sína. Lá hann lengi veikur eftir þetta og varð aldrei eins í málróm eftir þetta, því þegar hann talaði heyrðist eins og verið væri að smátaka fyrir háls hönum.
Þegar þessar þrjár nætur vóru liðnar og Magnús var lagztur veikur með ótta og skelfingu fór mönnum ekki að lítast á blikuna, en til allrar lukku var þar maður á heimilinu er Jón hét og kunni hann nokkuð frá sér að allra rómi.
Var hann þá beðinn að stökkva burt óvætti þessum, en hann var þess allfús að reyna það og kvað það mundi þó verða næsta örðugt. Lét hann þá loka bænum, krossa allar hurðir og ætlaði sér svo að handsama drauginn og þjappa svo að hönum að hann léti bónda vera í friði.
En svo var draugurinn frár að Jón gat með engu móti handsamað hann; tók hann þá það ráð að hann opnaði glugga einn á baðstofunni og gat rekið drauginn þar út um, hljóp síðan út á eftir hönum og ætlaði þar að ráðast á hann, en svo var þá draugurinn orðinn hræddur við Jón að hann flýði undan og elti Jón hann út fyrir landamerki jarðarinnar og skildi þar með þeim. Hefur síðan ekki orðið vart við drauginn á Finnbogastöðum.
En það er frá draugnum að segja að hann hélt strax að Reykjarfirði þar sem afkomendur Halldórs gamla bjuggu þá, fór þar í fjós þá sömu nótt og drap þar eina kúna. Síðan hefur hann engan stórkostlegan skaða gjört af sér, en hefur þó til skamms tíma fylgt mönnum af þeirri ætt.
- Svona sagði bæði Magnús sál. og aðrir fleiri mér þessa sögu og má því geta nærri að hún sé sönn!!!