Ég var á vappi í Lönguhlíðinni eitt kvöldið. Það var ískalt, svo kalt að ég hélt að ég yrði ekki mínútunni eldri. Ég gekk bara í mínum eigin þönkum, hugsaði mest um það að tærnar væru að detta af. Reyndar var ég mikið að hugsa um það að fara upp að næsta húsi, banka og spyrja hvort ég mætti koma örlitla stund inn til að hlýja mér en mamma hefur alltaf sagt að ég ætti ekki að tala við ókunnuga. Ég lét því hugsunina fjúka út í kuldann.
Ég var komin að Domus Medica og rölti áfram upp brekkuna, beygði til hægri og fram hjá sundlauginni. Allir sundgestirnir voru farnir, enda var klukkan orðin margt. Ég vonaðist mest eftir því að það myndi skyndilega birta og verða hlýtt eins og að sumri til. En ekkert varð úr þeirri bón minni.
Ég rölti beint áfram, ekkert gat stoppað mig.
Ég mætti manni á gangstéttinni. Hann gekk álútur og með hendur í vösum. “Ætli honum hafi verið jafn kalt og mér”, hugsa ég þegar ég er komin dágóðan spotta frá honum, sný mér við en sé engan. “Hmmm, þetta er skrítið” hugsa ég en held ferð minni áfram.
Áfram heldur för mín og mæti ég hópi af unglingum. Þessir eru eitthvað að rífast, ég er hætt að taka eftir. Skyndilega birtist maðurinn aftur fyrir framan mig á gangstéttinni. Mér bregður ekkert smá, fær nærri því hjartaáfall. Hann horfir beint í augun á mér, ég er alveg stjörf. Hann er með stór, græn augu og með ör á báðum kinnum, eins og hann hafi verið í bardaga við stóran Doberman hund. Mér bregður ekkert smá þegar hann loks opnar munninn og segir: “ann ananna anandndna”. Ég öskra úr hræðslu og sný mér við til að hlaupa. Hleyp eins hratt og ég get, eins langt og ég get, þar til ég hitti unglingana aftur. Þá öskra ég: “ann ananna anandndna”. Krakkarnir snúa sér við. Ég stari og kem ekki upp orði. “Hvað sagðiru, varstu að kalla mig fífl?” segir einn drengurinn, grípur í úlpuna mína og dregur mig upp að sér. “Ef þú kallar mig fífl einu sinni enn kýli ég þig”. Ég öskra aftur: “ann ananna anandndna.” Ég kem ekki upp einu einasta orði.
Skyndilega hrekk ég við og fatta að þetta hafi allt verið martröð.
Kv. torpedo