Reiður ungur maður.
Ooog…Einn tveir þrír fjór.. ég lem húðirnar eins fast og ég get. Öll reiðin sem er búin að vera að klípa í mig innanfrá fer í trommusettið. Svo hætta strákarnir alltíeinu að spila og horfa á mig. “Steini, þetta gengur ekki svona lengur. Við erum að reyna að flytja lag um ástina, ekki kjarnorkuslys.” Ég horfi á þá með svip sem hver sólheimabúi sem er hefði getað verið stoltur af. “Hvað meinaru?” Spyr ég svo. “Þetta á að vera rólegt og fallegt lag Steini.” Segir Jonni söngvari og horfir á mig einsog mamma mín þegar að ég gleymi að setja í þvottavélina. “Þú ert bara of ofsafenginn fyrir þessa hljómsveit.” Segir Robbi Bassaleikari og baðar út höndunum. Kaldhæðnislegt, hann að kalla einhvern ofsafenginn, hann með þessar svakalegu handahreyfingar. “Ofsafenginn? Hvað meiniði?” Spyr ég aftur og finn hvernig hjartað fer að slá enn hraðar en vanalega. “Þinn stíll hentar einfaldlega ekki þeirri tónlistarstefnu sem við erum að reyna að fylgja” Jonni horfir á mig með skerandi augnaráði. “Bíddu, eruði að reka mig úr hljómsveitinni?” “Já. Þú ert ekki að passa inní þennan hóp” “Ekki að passa inní þennan hóp? Þetta er fáránlegt!” Ég stend á lappir og hendi kjuðunum í gólfið. Annar brotnar við það að lenda á hörðu steypugólfinu. “Ef þið viljið losna við mig þá er ég farinn!” öskra ég og strunsa útum dyrnar á æfingarhúsnæðinu sem er í rauninni ekkert annað en gamall skúr sem við fengum að nota. Ég hleyp í burtu frá skúrnum enn reiðari en vanalega. Ég hata þetta, ég hata þá, ég hata hljómsveitina, ég hata þessa helvítis væmnu tónlistarstefnu sem þeir vilja endilega fylgja. Ég stofnaði þessa hljómsveit, ÉG! Ég og Jonni. Þá höfðum við ákveðið að spila harða tónlist, við vorum reiðir ungir menn sem tjáðum okkur í gegnum tónlistina. Svo komu Robbi og Siggi og Jonni fór að breytast. Hann var ekki reiður lengur. Hann vildi spila “fallega tónlist” væmnir textar, píanósóló og það sem verst var; engin trommusóló. En ég sætti mig við það, Jonni var vinur minn og hljómsveitin var það eina sem ég átti. En núna er Jonni ekki vinur minn og hann rak mig úr hljómsveitinni. Ég sit eftir allslaus. Ég hætti að hlaupa og leggst í grasið, tárin renna í fyrsta skipti í þrjú ár. Það er ótrúlega góð tilfinning að leyfa reiðinni að renna svona út í vökvaformi. Svo hætta tárin að renna og ég velti mér yfir á bakið. Ég horfi uppí himininn og mér líður betur en mér hefur liðið í mörg ár. Ég ákveð að setja auglýsingu í fréttablaðið og auglýsa eftir hljómsveit sem spilar harða tónlist. Það hentar mér betur. Ég stend upp og labba heim. Ég verð að sækja trommusettið mitt. Á morgun.