Orðin flæktust ekki fyrir honum, varð mér ljóst, er ég las skriftir hans.
Ruglingsleg eins og hún var, fáránleg og óskiljanleg allt í senn, þá var þetta vel skrifuð saga. Ja, ef sögu mætti kalla. Samansafn of mörgum skrítnum, og hreint út sagt, tja, fáránlegum (afsakið endurtekninguna) setningum sem virtust ekki eiga heima við hlið hvorrar annarrar, setningar sem, þrátt fyrir að vera lausar við allt samhengi og, eins og áður var sagt, áttu ekki heima hlið við hlið, virtust eiga að vera þarna saman. Þær áttu heima hlið við hlið. Þessar setningar fylltu skjáinn, þær tengdust og mynduðu þessa sögu, þessa skrítnu sögu fyllta af allskyns lýsingarorðum og nafnorðum sem, eins og setningarnar, virtust enga samleið hafa, en þrátt fyrir það pössuðu þau saman. Adam og Eva. Rómeó og Júlía.
Hér sit ég nú fyrir framan tölvuna, þremur klukkustundum eftir að hafa lesið þessa sögu, og skrifa um hana.
Og nú hugsa ég till þess hve mikið betri sagan hans var en þessi skrift mín hér, eiginlega farinn að hata þetta.
Of langar setningar, illa samansett, lélega staðsett greinarskil…
Spurning hvort ég geti nokkurn tímann skrifað jafn vel. Og vaknar þá sú spurning í huga mér hvort hann gæti skrifað jarðbundnari sögu með jafnmikilli lipurð, því ég veit ekki hvort fólk myndi njóta þessarar sögu, sama hve vel skrifuð hún er, því samhengið er nánast ekkert…. eða hvað… ég minnist þess þó að samhengi hafi verið nokkurt og honum hafi tekist að gera söguna dáldið ljóðræna, þrátt fyrir ruglingslegar bull-setningar sem fleytt hafði verið inn í textann af þvílíku handahófi að áður hefur ekki þekkst. Kom mér reyndar á óvart þegar ég hafði lesið söguna hve úthugsað þetta hafði verið.
Hvernig skal nú ljúka þessu… ég hef aldrei kunnað það. Hvað með svona?


Skrifað um sögu sem vinur minn skrifaði. Hún er enn ókláruð og gengur hægt að sögn vinar míns, kannski eitthvað um 6-7 línur í hverri viku, eða svo sagði hann, og hefur ekki hugmynd um það hvenær hann muni ljúka henni. Ég fæ hann vonandi til að senda söguna inn þegar hann hefur lokið henni.