Þetta er smásaga sem ég var að leika mér að skrifa fyrir nokkrum árum. Vona að ykkur finnist hún skemmtileg.

Einu sinni var strákur sem hét Jói. Hann átti heimsmetið í poppáti. Einn morguninn, þegar hann var að fá sér popp, sá hann auglýsingu í Mogganum um barna-og fjölskylduskemmtun í Húsdýra-og fjölskyldugarðinum. Jói ákvað að fara þangað, af því að hann var loksins búinn að fá vasapeningana sína. Þegar hann kom þangað ákvað hann að fara fyrst á töfra- og galdrasýningu. Á þessari sýningu var hellingur af töfrabrögðum, en þetta voru allt brögð sem Jói hafði séð áður. Allt í einu var bankað á öxlina á honum. Þegar Jói sneri sér við sá hann gaur sem var 60 cm minni en hann sjálfur. Dvergurinn var með galdrahatt og sagðist vera galdramaður.
„Hey,“ sagði Jói. „Ef þú ert galdramaður þá er ég Andrés Önd.“
„Jæja trúirðu mér ekki?“ sagði dvergurinn. „Ég skal sanna það fyrir þér.“ Dvergurinn tók bréfpoka úr vasanum. „ Það er töframaísbaun í þessum poka. Grafðu hana niður og sjáðu hvað gerist“.
„Ókidóki, komdu þá með pokann, það væri kanski hægt að poppa hana.“
Þegar Jói kom heim henti hann bauninni fyrir utan húsið sitt. Daginn eftir þegar hann vaknaði sá hann risastóran maísstöngul. Jói ákvað að klifra upp stöngulinn. Hann tók skordýraeitur, kveikjara og 2 l kókflösku með sér. Þegar hann var kominn alla leið upp sá hann risastóran bréfpoka. Jói gekk í gegnum rifu á pokanum og sá alveg helling af risastórum maísbaunum. Þegar maísbaunirnar tóku etir Jóa reyndu þær að ná honum, en Jói hljóp alltaf á undan.
„Þetta er of heimskulegt,“ hugsaði Jói. „Það eru risastórar maísbaunir að elta mig, ég poppa þær bara.“ Hann tók upp kveikjarann og poppaði baunirnar. Síðan klifraði hann niður stöngulinn og kveikti í honum. Eftir það var Jói kærður fyrir hávaðamengun og þurfti að fara í fangelsi í mánuð, en þegar honum var sleppt varð hann forstjóri hjá risastóru poppfyrirtæki.