Það ríkir kyrrð yfir litlum sjávarþorpum. Þannig er það bara.
Það er þó eitthvað allt annað en kyrrð sem ríkir yfir Óttari þessa nótt. Hann er eirðarlaus. Hann nagar neglurnar, gengur um gólf, augnaráðið flöktir ráðvillt um alla veggi gamla timburhússins og hann skammar sjálfan sig fyrir að hafa drukkið svona mikið kaffi um kvöldið.
,,Bank, bank!” segir dyrabjallan með rödd Óttars. Hún er það eina nýtískulega í húsinu, hægt að tala inná hana einsog símsvara. En hún er ekki nógu þróuð tilað taka skilaboð, svo Óttar lætur tilleiðast og fer til dyra.
Hann hikar; togar svo í hurðarhúninn og opnar. Varlega, en samt þannig að kúlið verði ekki fyrir skaða. Og hann brosir útí myrka nóttina.
Í gættinni stendur stelpa, svona níu ára, kannski tíu. Hún er allavega of gömul tilað vera dóttir hans. Enda á hann enga dóttur.
,,Góða kvöldið,” segir Óttar einsog gamall og lífsreyndur maður og klórar sér aftan á kálfanum með ristinni. Lúmskur.
,,Góða kvöldið,” svarar stúlkan og horfir brosandi upptil hans.
Hún er með spenntar greipar, handleggirnir oná hvor öðrum og það er einsog hún haldi á tösku. Sítt og brennandi rautt hárið lekur niður axlirnar á henni einsog þykkur gulrótasafi, nú eða 3gils appelsínuþykkni, augun stara barnslega á hann., stór og skær, og einhver fullvissa í þeim, eitthvað sem segir honum að þær gerist ekki sjálfsöruggari en hún þessi. Nefið er lítið og freknótt og nákvæmlega mitt í andlitinu. Tennurnar beinar, einsog hún hafi fengið falskar fyrir fermingu.
,,Hvað viltu svona seint?” spyr hann og reynir að vera svolítið ergilegur, og hljóma einsog hann hafi verið að vakna. En hún trúir því sjálfsagt hvorteðer ekki, þarsem hann er í gallabuxum, hnepptri skyrtu og með hárið snyrtilega greitt útí loftið.
,,Ég er að leita að Sólu. Ert þú pabbi hennar?”
Óttar verðu svolítið svekktur. Er hann raunverulega orðinn svona gamall?
,,Nei, það býr engin Sóla hér,” tautar hann og ætlar að loka á stelpuna.
,,Bíddu!” segir hún hvellt og stingur litlum fæti íklæddum rauðum lakkskó í gættina. ,,Það er alltí lagi. Ég er nefninlega Sóla.”
Óttar veit ekki alveg hvernig hann á að haga sér.
,,Og… ertu að leita að þér?”
Sólan hlær.
,,Nei. Ég er að leita að þér,” útskýrir hún brosandi, einsog það hafi verið deginu ljósara frá upphafi og um aldir alda amen…
,,Og hvað viltu mér?” spyr hann.
Hann er hálfsmeykur. Getur ekki vel verið að þetta sé einhver afturgenginn geðsjúklingurinn, dulbúinn sem lítil stúlka, hingað kominn tilað hrella hann til eilífðar, sitja fyrir honum í dimmum skotum og bregða honum, blása aftaná hálsinn á honum þegar ljósin slokkna og láta einhverjar bévítans raddir hljóma í höfðinu á honum daginn út og inn?
,,Bara…” skyndilega verður stúlkan feimin. Sjálfsöryggið í augnaráðinu hverfur og hún lítur undan.
Kannski var hann of hranalegur.
,,Viltu kaffi?” spyr hann. ,,Kakó?” leiðréttir hann sjálfan sig þegar hann áttar sig á því að níu-tíu ára krakkar drekka sjálfsagt ekki kaffi.
,,Kaffi væri fínt, takk,” svarar Sóla.
Óttar lokar hálfhvumsa á eftir henni og fylgir henni inní eldhús. Það eru bara nokkur skref; þetta er lítil íbúð.
,,Eitthvað meððí?”
Hún hristir hausinn.
Þegjandi hellir hann uppá kaffi, leggur á borð og raðar sykurmolum af kostgæfni í lítið járnkar. Mjólkina setur hann í litla glerkönnu með spena. Eitthvað drasl sem hann keypti á Djamæka í seinasta sumarfríi. Hann hafði fraið með nokkrum vinum og ætlunin var upphaflega að komast yfir eins mikið hass og Bobb-Marlei plötur og hægt var. Ferðin fór þó aðallega í kaup á einskisnýtum hlutum sem þeim félögum þóttu sniðugir þá. Fyrir fjórum árum.
,,Já,” hugsar hann. ,,Það eru fjögur ár síðan ég hef tekið mér sumarfrí.”
Kaffimaskínan vælir einsog teketill.
,,Jæja, ætlarðu að segja mér hvað þú ert að gera hérna?” spyr Óttar um leiðog hann hellir kaffi í bollann fyrir framan Sólu.
,,Já, rétt strax.”
(tú bí kontinjúd)