Einu sinni var glæpamaður. Þetta var ekkert venjulegur glæpamaður heldur var þetta geimvera. Hann hét Duxl og var dulargervissnillingur. Hann gat umbreytt sér í hvaða veru og hvaða hlut sem var. Hann átti heima á plánetunni Strumpi í áttatíu og tveggja ljósara fjarlægð frá jörðu. Hann var eftirlýstur fyrir marga glæpi og Alheimslöggan var á eftir honum. Þess vegna var hann alltaf að finna sér nýjan stað til að vera á.
Einn daginn kom hann til jarðar af því að Alheimslöggan hafði komist á snoðir um felustað hans. Hann hafði sloppið naumlega með því að breyta sér í litla geimverustelpu. Hann var mjög óöruggur þegar hann lenti á jörðinni og vissi ekkert um þessa plánetu, sem í fyrstu virtist mjög hættuleg.
Þegar að hann sveimaði yfir plánetunni þá sá hann reyk standa upp í loftið á mörgum stöðum og lenti eftir langa umhugsun á litlu landi sem virtist fullkomlega laust við allar hættur. Hann lenti á einhverju hvítu efni sem hann þekkti ekki, en var mjög kalt viðkomu. Hann sá ljós í fjarska og notaði ofursjónina sína til að rannsaka útlit veru sem hann sá móta fyrir við sjóndeildarhringinn. Svo reyndi hann að gera sig eins líkan verunni og unnt var. En allt í einu fann hann að það virkaði ekki, hann gat ekki breytt sér!
Hann fór aftur inn í geimskipið sitt, alveg í sjokki yfir að geta ekki umbreytt sér og setti stefnuna beint í vestur. Þegar að hann var búinn að fljúga í fimm mínútur sá hann mikið af ljósum og ákvað að lenda aðeins frá ljósadýrðinni til að geta rannsakað þetta betur. Hann lenti á auðu túni sem að var alveg mannlaust. Það var hús þarna við túnið og svart gljáandi málmstykki með hjólum fyrir framan dyrnar á því. Allt í einu kom gamall maður út um dyrnar og settist inn í skrýtna farartækið. Síðan elti önnur jarðvera hann út í farartækið og þetta skrýtna farartæki rann af stað. Þessi seinni jarðvera var mikið unglegri og var í fallegum fötum og það sem vakti áhuga Duxl var að hún var með demantshálsfesti sem var örugglega mjög verðmæt.
Duxl vildi eignast þessa hálsfesti, en hvernig gat hann rænt henni þar sem að hann gat ekki breytt sér?
Hann elti farartækið skrýtna á geimskipinu þar til að það stoppaði fyrir framan stórt hús sem var mjög skrítið í laginu. Hann fann að það var mikið af fólki þarna inni og vissi ekki hvernig átti að dulbúa sig til að komast inn þar sem að hann gat ekki umbreytt sér. En allt í einu fékk hann hugmynd, hann sá litríka jarðveru inní sölubás með marglita bolta allt í kring og datt í hug að stela fötunum hans og læðast inn í húsið til að fylgjast með hálsfestinni. Svo að hann læddist aftan að marglitu verunni og dró hana bakvið einhverskonar gám og reif fötin af honum. Hann átti í nokkrum erfiðleikum með að troða sér í buxurnar enda var hann með mjög langa fætur. Þegar að hann var kominn í fötin fór hann inní húsið og sá að gamli kallinn var uppi á sviði að tala. Unglegi jarðarbúinn sat alveg kyrr við hliðina á gamla kallinum og var með hálsfestina á sér.
Duxl beið færis til að ráðast upp á sviðið og hrifsa hálsfestina. Allt í einu sá hann tækifærið þegar að gulklædd jarðvera sem gætti inngangsins á sviðið var að öskra á nokkur jarðarbúabörn fyrir að vera að leika sér á tréplötu sem rennur. Hann stökk í tveimur skrefum upp á sviðið og reif hálsfestina af unga jarðarbúanum. Svo stökk hann aftur niður af sviðinu og hljóp út á harðaspretti. Hann var eltur af gulklæddum og svartklæddum jarðarbúum þar til að hann kom að geimskipinu sínu. Þá stoppuðu jarðarbúarnir allir og hlupu öskrandi í burtu. Hinn fullkomni glæpur hafði verið framinn!
Þegar að Duxl var kominn að endimörkum sólkerfis jarðar sá hann Alheimslöggugeimskip og það sá hann greinilega líka því gífurlegur eltingarleikur hófst. Duxl var alltaf aðeins á undan en þegar að leið þeirra lá í gegnum loftsteinabelti komst löggan upp að hlið Duxl og flaug inn í hliðina á honum svo að hann klessti á lofstein. Þegar að lögreglumaðurinn fór að skoða rústir flaugarinnar sá hann bara steina og brotin stjórntæki um allt. Hann sagði í Alheimslögreglutalstöðina að hann hefði ráðið niðurlögum Duxl og fékk nokkrum dögum seinna stöðuhækkun.
Löggan hefði átt að leita betur, því að hún tók ekki eftir litlum gúmmíbolta sem lá í rústunum, það var nefnilega Duxl. Duxl fann veðmangara á Plútó sem lét hann hafa 41 kíló af gulli fyrir hálsfestina og hann lifði góðu lífi eftir það.
Hver segir svo að glæpir borgi sig ekki??