Halló kæru notendur. Þetta er byrjun á sögu sem ég gerði í gær. Þið eigið svo að halda áfram með hana. Og ég er ekki að meina bara nokkur orð, heldur kafla sem eru álíka langir og þessi sem ég sendi inn. Athugið að fyrstu línurnar á að vera endi á sögunni, þannig að það er í raun ykkar hlutverk að mynda hlekkina á milli fyrstu línanna og afgangnum af sögunni. Gangi ykkur vel.






Brotna kaffikannan

Það hafði verið framið hryðjuverk á Brávallagötu 26. Og ég var eina vitnið að því. Á meðan ég horfði á glerbrotin á gólfinu reyndi undirmeðvitundin mín ósjálfrátt að fara í skýjaleik með þau, reyna að sjá myndbrot úr þessu atviki sem hafði greypt sig inn í huga minn.

Ég nennti ekki að hreinsa upp á gólfinu. Helvítis kaffikannan mátti eiga sig þarna.




Það var líf og fjör í partýinu heima. Ég hafði boðið öllum mínum vinum og gervivinum heim til mín, og nú skyldi sko aldeilis djamma feitt. Gólfið heima hjá mér var næstum því troðið, enda er íbúðin mín ekkert sérlega stór þótt hún sé í sæmilegra lagi í 101 Reykjavík.

Athygli mína vakti ung stúlka í grænum pilsi og svarthvít-röndóttum sokkabuxum. Hún leit ansi laglega út og þess virði að reyna að ná sambandi við hana og kynnast henni betur.

Leyfið mér aðeins að kynna mig. Ég heiti Örn Svavar og er nemi í Háskóla Íslands. Öfugt við flesta háskólanema sem þurfa að kúldrast í einhverri stúdentaíbúð langt í burtu frá Háskólanum hef ég þann einstaka forgang að hafa íbúð á besta stað í bænum, spölkorn frá skólanum. Margir vilja kalla mig uppgjafa pabbastrák, en mér er alveg sama þótt ég aki um á flottum bíl og sé hneigður fyrir að skemmta mér. Það er tilgangslaust að láta bestu ár ævi sinnar líða bara hjá á meðan maður situr með hendur í skauti, ekki satt?

Ég var orðinn nokkuð ölvaður og ætlaði að ganga beint að stúlkunni í pilsinu og sokkabuxunum og athuga hana nánar. En áður en ég komst svo mikið sem nálægt henni, steig Doddi, minn besti vinur, upp á stól. Það sást auðveldlega að hann hafði fengið sér nokkra bjóra því til að fá athygli lamdi með skeið í mjólkurglas svo harkalega að það kvarnaðist úr því.

Eftir ítrekaðar tilraunir til að fá mannskapinn til að þagna tókst honum það loksins og hann fékk orðið:

,,Komið þið sæl. Ég veit að ég hljóma…þúst, geðveikt formlegur og leiðinlegur, en mig langar bara mikið til að fá ykkar athygli í smástund. Þetta skiptir mig miklu máli og ég væri rosalega þakklátur ef þið gefðuð mér frið til að tala, skiljiði.
Fyrst af öllu vil ég þakka Erni Svavari fyrir öll sín frábæru partí. Skál fyrir honum!“

Það fór léttur ”Skál“ kliður um stofuna, og á stöku stað heyrðist klingja í glerglösum. Annars skálaði fólk í hverju sem það hafði, bjórdósum, rauðvínsflöskum eða plastglösum.

Doddi hélt áfram:

”…og, já takk. Og líka eitt annað sem mig langar til að segja…“, hann leit soldið skömmustulega út og steig niður af stólnum og hélt áfram í lægri tón, ”…ég verð að játa það fyrir ykkur öllum..að ég…ég hef…"

Hann stoppaði í nokkrar sekúndur. Doddi hafði greinilega áunnið sér athygli allra í partýinu. Fólk leit með dálítið undarlegum svip hvert á annað og vildi auðsýnilega fá að heyra meira.